Samkomulag hefur svo gott sem tekist um þrjár af fimm helstu kröfum sjómanna, en samningamenn sjómanna segja allt stál í stál varðandi hin tvö, sem eru olíuviðmið og sjómannaafsláttur. Frá þessu segir á vef RÚV.

Verkfall sjómanna hófst 14. desember og hefur því staðið í á annan mánuð. Nokkuð stíft hefur verið fundað að undanförnu, en smá hlé var gert á fundalotunni til að deilendur geti farið yfir málin og rætt við bakland sitt og verður næsti fundur hjá Ríkissáttasemjara klukkan 13 næstkomandi mánudag.

Fæði, vinnufatnaður og fjarskipti

Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands sagði í samtali við fréttastofuna að menn væru að fara yfir stöðuna. Ákveðin atriði væru komin í hús, eins og hann orðaði það, en þau lúta að fríu fæði um borð, með ákveðnum skilyrðum, frían vinnufatnað og bókun varðandi fjarskipti. Þar er kveðið á um að sjómenn taki ekki þátt í kostnaði við búnað, en borgi sinn eigin netkostnað. Hann segir hins vegar allt stál í stál varðandi hinar tvær kröfurnar, en þær lúta að þátttöku sjómanna í olíukostnaði og sjómannaafslætti. Olíuviðmiðið er nú 70%, það þýðir að 30% af aflaverðmæti fari framhjá skiptum og fari í olíukostnað og fleira. Sjómenn vilja hækka viðmiðið í 73%, þannig að 27% fari framhjá skiptum. Valmundur segist út af fyrir sig bjartsýnn, en búist samt ekki við neinu af hálfu útgerðarinnar, sem hann vonist þó til að sjái að sér.

Ekki hvikað frá kröfu um sjómannaafsláttinn

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði í samtali við fréttastofuna að menn hafi vitað að þessi tvö atriði yrðu erfiðust, en það væri morgunljóst að sjómenn myndu ekki hvika frá kröfunni um sjómannaafsláttinn. Hann hafi verið í gildi frá árinu 1957, en afnuminn með lögum árið 2009. Vilhjálmur segir það gleymast að sjómenn færi fórnir, þeir vinni við erfiðar og krefjandi aðstæður og séu fjarverandi í allt að 30 daga. Þeir njóti því ekki sömu lífskjara og fólk í landi.  Að sögn Vilhjálms er framreiknaður sjómannaafsláttur frá þeim tíma sem hann var afnuminn 1.159 krónur á dag og miðað sé við það í kröfum sjómanna. Þetta þýði að útgerðin þurfi að leggja til 2000 krónur á dag til að bæta hann þegar launatengd gjöld eru innifalin. Hann segir þetta skipta sjómenn verulegu máli þar sem afslátturinn geti numið 300 þúsund krónum á ári. Vilhjálmur segir að í þeim löndum sem sjómenn miði sig við sé slíkur afsláttur veittur af ríkinu og að hann sé víðast hvar hærri en hann var hér á landi. Kröfur sjómanna verði að beinast að útgerðinni því ekki sé hægt að beina kröfum að þriðja aðila.

Sem fyrr segir er næsti samningafundur á mánudaginn, en Vilhjálmur Birgisson segist ætla að halda fund með sínum félagsmönnum klukkan 14 í dag þar sem farið verði yfir stöðuna. Ekki komi til greina að halda áfram öðruvísi en í nánu samráði við þá, þegar sé búið að fella samninga í tvígang og ekki þýði að samningar verði felldir í þriðja sinn.