Ekkert nýtt um álag fiskveiða á heimshöfunum er að finna í nýrri grein í hinu virta tímariti Science, en hún hefur vakið mikla athygli. Þessu heldur Ray Hilborn, prófessor í fiskifræði og þekktur fræðimaður við Washington-háskóla, fram í viðtali við fréttaveituna Seafood Source. Gögnin eru hins vegar allrar athygli verð, sé rétt úr þeim lesið, segir Hilborn.

Greinin sem um ræðir birtist í Science í febrúar þar sem gervihnattagögn frá 70.000 fiskiskipum á árabilinu 2012 til 2016 voru keyrð saman til að sýna álagið á heimshöfunum. Var fullyrt að með rannsókninni væri sýnt fram á að það svæði sem væri undir álagi vegna fiskveiða væri stærra en landsvæðið sem nýtt er til landbúnaðar á heimsvísu.

Þvert á móti segir Hilborn að upplýsingarnar bætu engu við fyrri vitneskju um fiskveiðar á heimshöfunum, en víðlesnir fjölmiðlar hafa gert mikið úr rannsókninni og hún því vakið athygli. Ein aðal niðurstaðan var sú að 55% af heimshöfnum væru nú nýtt til veiða.

Hilborn segir að stór hluti þeirra gagna sem liggja niðurstöðunni til grundvallar séu frá stórum túnfiskveiðiskipum, sem hafa verið undir eftirliti áratugum saman. Þetta skekki myndina þar sem að í raun séu það fá önnur en þessi skip sem nýta hafið utan landgrunnana, og auga hafi verið á þessum veiðum frá því á áttunda áratugnum.

„Ekki aðeins eru þetta gamlar fréttir heldur kemur þar fátt fram um álag vegna trollveiða á mörg vistkerfi, en álag þeirra vegna getur verið mun meira en frá línu- og netaveiði á túnfiski á úthafinu. Hann gerir að því skóna að á vissum svæðum geti álagið á landgrunni vegna veiða með botntrolli verið þúsundföld á við álagið af túnfiskveiðunum.

Stórkostlegt ofmat

Hann telur gögnin sem rannsóknin byggir á ofmeti það svæði sem raunverulega er nýtt til veiða stórlega – jafnvel allt að tífalt. Á sama tíma hefur Hilborn og hans rannsóknarteymi nýlokið fimm ára rannsókn á trollveiðum þar sem álagið var metið. Hann vill samnýta sína vinnu og gögnin úr rannsókninni sem hann gagnrýnir, því þau séu allra athygli verð. Hins vegar hafi þær upplýsingar úr rannsókninni sem raunverulega skipta máli ekki verið dregnar fram, en það er sú staðreynd að hægt er að fylgjast með breytingum á sókn skipa ár frá ári.

Það sem er mest um vert eru skilaboðin um að enginn getur lengur falið sig á úthafinu við veiðar, segir Hilborn. Það gefi gríðarleg sóknarfæri við að berjast gegn ólöglegum veiðum og frávikum frá lögum og reglum við veiðarnar.

Afleit staða – rangt!

Í umfjöllun stórblaðsins Guardian um rannsóknina var það dregið fram að niðurstöðurnar setji spurningamerki við sjálfbærni veiða á heimsvísu. Þá skýri niðurstöðurnar þá staðreynd að vissir fiskistofnar séu á fallandi fæti, og er vísað til niðurstaðna Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO).

Hilborn heimsótti Ísland í september þar sem hann var einn fjölmargra fyrirlesara á World Seafood Congress – alþjóðlegri ráðstefnu sem hér var þá haldin í fyrsta sinn.

Í erindi sínu á WSC sagði hann fullyrðingar um að staða fiskistofna í heimshöfunum sé heilt yfir afleit vegna ofnýtingar, standist ekki skoðun. Þó sé ástandið vissulega alvarlegt á tilteknum svæðum, þá sé það frekar undantekning en reglan.

Hann vék í upphafi erindis síns að þeirri staðreynd að váleg tíðindi um stöðu fiskistofna – og þá helst heimsendaspár um tóm höf – fengju ávallt mikla athygli helstu fjölmiðla heims. Þess vegna, telur Hilborn, að sú tilfinning sé ríkjandi meðal almennings að staða nytjastofna heimsins sé miklu mun verri en rannsóknir sýna.

Þúsundir rannsókna

Rannsóknirnar sem Hilborn vísar til eru margar og frá öllum heimshornum og safnað af þúsundum vísindamanna. Niðurstöðurnar eru síðan geymdar og eru aðgengilegar í sérstökum gagnabanka – RAM Legacy Database. Innan hans eru þjóðir sem veiða ríflega helminginn af öllu sjávarfangi sem að landi kemur. Litlar upplýsingar hafa fengist frá Asíu og Suðaustur Asíu, en góðar frá öllum þróuðum ríkjum heims. Hafsvæði við Vestur Afríku, Miðjarðarhafið og Svartahaf eru ofveidd.

„Stóra myndin er þó sú að fjölmargir fiskstofnar sem eru nýttir eru stöðugir, og víða að vaxa. Á svæðum eins og í Noregi, Íslandi og víðar, hefur þetta verið tilfellið í þrjá áratugi. Það sama á við víða í löndum innan Evrópusambandsins og Nýja-Sjálandi. Meira að segja er þetta tilfellið í Rússlandi og Japan.“

Rétt úr kútnum

Hilborn spurði og svaraði þeirri spurningu af hverju fiskstofnar séu að rétta úr kútnum, og fara stækkandi. Það sama er uppi alls staðar – dregið hefur verið úr sókn á síðustu áratugum. Og allt byggir það á skilvirkri fiskveiðistjórnun og rannsóknum.

Víða telur Hilborn það vera í góðu lagi að veiða meira – á vissum svæðum sé það staðreynd að veiðin er minni en það sem sjálfbær nýting leyfir. Hann sagði jafnframt að reynt hefði verið að meta stöðuna á þeim svæðum þar sem rannsóknir eru litlar eða engar. Þar virðist það sama vera uppi á teningnum – það eru fiskstofnar sem leyfa meiri veiði, að því er virðist.

Stjórnun og rannsóknir

„Stóri munurinn á þeim svæðum þar sem staðan er góð og þar sem hún er það alls ekki, er fiskveiðistjórnun og rannsóknir,“ sagði Hilborn og bætti við að þegar verg þjóðarframleiðsla var borin saman við áherslur í fiskveiðistjórnun þá blasti við að það eru ríkar þjóðir sem leggja meiri áherslu á þessa þætti en þær sem sem hafa minna á milli handanna. Sama á við um eftirfylgni með lögum og reglum. Þeir sem hafa ráð á því – fara vel með.

Hilborn bætti við að önnur fullyrðing um fiskveiðar á heimshöfunum stæðist ekki skoðun, og það væri sá skaði sem veiðar með botntrolli ylli, og mikið hefur verið fjallað um. Reyndar hefur verið kallað eftir banni á þessu veiðarfæri í ljósi þess hversu illa það færi með vistkerfið í hafinu. Sú þriðja væri að kolefnisspor fiskveiða í heiminum væri lágt – og reyndar það lægsta af allri framleiðslu á mat eins og hún er stunduð í dag. Landbúnaður væri allt annað mál, því með því að yrkja land fylgdi óumflýjanlega umbylting vistkerfisins eins og það er frá náttúrunnar hendi, og þetta væri fjarri því að vera tilfellið með fiskveiðar, þó dæmi finnist um mikið inngrip í vistkerfið.