Guðjón Indriðason framkvæmdastjóri og aðaleigandi Þórsbergs á Tálknafirði staðfestir í samtali við vefinn bb.is að til standi að selja bæði skip og kvóta á eigu félagsins til Nesfisks í Garði. Kópur BA-175 er 350 tonna línubátur smíðaður í Noregi 1968 og mun hann að öllum líkindum fylgja með þeim 1200 tonna eignakvóta sem selja á suður á Reykjanes. Að sögn Guðjóns mun Nesfiskur reiða fram sem greiðslu krókakvóta í svipuðu magni og fylgir Kópnum suður og heildar kvótaeign á Vestfjörðum muni því ekki rýrna. Þórsberg er með í smíðum 23 tonna bát sem reiknað er með að verði sjósettur í nóvember.

Þórsberg sagði upp öllum starfsmönnum sínum og vinnslu félagsins var lokað. Haft er eftir Guðjóni á bb.is að tilraunir til að opna hana aftur með nýjum aðilum hafi ekki gengið upp. Þegar mest var voru starfsmenn félagsins um það bil 60 og er lokun vinnslunnar og sala Kóps því mikið reiðarslag fyrir svona lítið bæjarfélag. Þrátt fyrir að nýr bátur verði sjósettur fljótlega og að talsverður eignakvóti verði eftir í félaginu eru engin áform um að opna vinnslu. Þess má geta að frystihús og saltfiskverkun Þórsbergs eru auglýst til sölu eða leigu ásamt öllum búnaði í Fiskifréttum í dag.

Sjá nánar á vefnum bb.is.