„Ég segi stundum um sjávarútveginn að hann sé fullur af tækjaóðu fólki með trillukarlasyndróm,“ sagði Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði, þegar hann flutti erindi í Þekkingarsetri Vestmannaeyja fyrir skemmstu.

„Menn vilja fá öll flottustu tækin, öll bestu fiskileitartækin. Þeir vilja fara og veiða fisk, helst selja hann á markaði, fá borgað á morgun og fara aftur út að veiða. Þetta kalla ég trillukarlasyndrómið.“

Hann segist vel skilja trillukarlinn, en hins vegar skilji hann ekki hvers vegna menn séu staddir þar þegar komið er út í stærri myndina.

„Ef þú skoðar svo stóru myndina þá er það hinn endanlegi neytandi sem skiptir öllu máli og þú vilt að hann dragi vöruna í gegnum kerfið en ekki að þú þurfir að ýta henni. Til þess að hann vilji draga þetta í gegnum kerfið hjá þér þá verðurðu að byggja upp ímynd og byggja upp eftirspurn, og það er þar sem ég tel að við höfum feilað.“

Róbert segir það vissulega vera erfitt að byggja upp vörumerki sem skilar nægum tekjum til að menn leggi út í þann kostnað.

„Ísland á í raun ekki nema tvö vörumerki. Annað er Ísland, nafnið á landinu, og hitt er Björk.“

Icelandic að engu gert
Íslendingar reyndu um tíma að byggja upp vörumerkið Iceland fyrir íslenskt sjávarfang en Róbert segir þær tilraunir að engu orðnar. Sjálfur var hann stjórnarformaður Icelandic Group um árabil og reyndi þá ýmislegt til að útvega fjármagn til uppbyggingar.

„Ég var að reyna að byggja þetta upp í ákveðna stærð. Mig dreymdi um að gera þetta að vörumerki þar sem við hefðum haft eitthvað að segja við dreifiaðilana.“

Hann sagði dreifiaðilana í Bandaríkjunum meira og minna ráða ferðinni í þessum efnum reyndi því að fara í stóra hlutafjáraukningu til þess að taka yfir bandarískt fyrirtæki.

„Mér er það mjög minnisstætt, ég held það hafi verið árið 2003,“ sagði Róbert, „að ég heimsótti einn af stóru lífeyrissjóðunum og sat á fundi með einum af forstjórunum. Ég hélt þessa þrumuræðu að ég hélt, þegar hann segir við mig: Róbert minn, í þessum sjóði höfum við ákveðið að færa okkur alfarið út úr sjávarútvegi. Þið standist ekki samkeppni í ávöxtun við bankana og tryggingarfélögin. Ég veit ekki hvað varð mikið eftir af eignum hans í þeim félögum eftir hrun, en þetta er mentalitetið.“

Icelandic Group fór síðan illa út úr hruninu og lenti í höndum Framtakssjóðs Íslands.

„Þar töldu menn best að brjóta þetta niður, leigja vörumerkið til samkeppnisaðilans vegna þess að menn treystu sér ekki að fara hina leiðina. Það þarf ekkert að leyna því að ég var mjög ósáttur við þá aðgerð þó ég hafi kannski ekkert haft um það að segja vegna þess að ég var alfarið kominn út úr íslenskum sjávarútvegi.“

Hann virðist telja vonlítið úr þessu fyrir Íslendinga að snúa við blaðinu og reyna að byggja upp þekkt vörumerki, eða „brand“ fyrir íslenskan þorsk.

„Ég myndi ekki reyna að búa til brand úr þorskinum. Við eyðilögðum það með Icelandic.“

Úthafseldi er framtíðin
Róbert ræddi einnig um framtíð laxeldis hér á landi. Hann þekkir vel til fiskeldis því á yngri árum bjó hann lengi í Mexíkó þar sem hann var með túnfiskeldi. Einnig var hann með laxeldi suður í Chile.

„Þá fékk ég áhuga á þessu og hef enn áhuga.“

Hann segir menn þurfa að búa sig undir miklar breytingar í fiskeldi á næstu árum og áratugum, og brá upp á skjáinn mynd af Ocean Farm úthafseldiskví sem norski fiskeldisrisinn Salmar er byrjaður að gera tilraunir með.

„Ég held að það fiskeldi sem við þekkjum í dag muni verða eins og það er næstu árin, upp í einn áratug eða hvað, en ég trúi því að þetta muni færast allt út í haf,“ sagði hann.

„Ísland er byggilegt af því við höfum golfstrauminn, en hann klofnar fyrir sunnan land. Ég hef því varpað þeirri spurningu fram að ef við ætlum að vera í úthafseldi hvar er best að vera með úthafseldi. Því er verr og miður þá er það ekki fyrir utan Siglufjörð.“

Vestmannaeyjar henti þar betur, telur Róbert

„Ég held að úthafseldi verði hér við suðurströndina út af golfstraumnum, og ég trúi því og er nokkuð sannfærður um það að það sé þess virði að menn taki sig saman og byrji grunnrannsóknir á því hverjar eru náttúrlegar aðstæður hér sunnan við Eyjarnar fyrir framtíðar fiskeldi ef þetta er að fara í úthafseldi.“

Hann trúir því að Vestmannaeyjar geti orðið mikilvæg miðstöð úthafseldis, rétt eins og Stavanger í Noregi er mikilvæg miðstöð fyrir olíuvinnslu þar í landi, enda þótt olían sé að sjálfsögðu ekki unnin í Stavanger.

„Enda er það þannig að þessir nýju brunnbátar geta haldið fiskinum á lífi í nokkra daga. Úthafseldi er þannig ekkert háð því að það sé höfn rétt hjá til að vinna fiskinn. Þú getur siglt með hann til Bretlands eða þess vegna til Portúgal þar sem hann er unnin. En þú þarft alltaf að vera með höfn, eins og Stavanger, sem er nálægt þessu.“

Þekkingarsetur Vestmannaeyja heldur úti merkri erindaröð yfir veturinn og hefur einu sinni í mánuði fengið áhrifafólk tengt sjávarútvegi til að segja frá því sem það er að fást við. Erindin eru hvert öðru forvitnilegri. Þau eru jafnan birt á vef setursins en Fiskifréttir hafa undanfarið greint frá ýmsu því sem þar hefur komið fram í vetur.