Norsk stjórnvöld telja sig þurfa að koma varanlegri skipan á gjaldtöku fyrir laxeldisleyfi í sjó. Nefnd hefur verið sett í málið og er vonast til þess að endurskipulagningu verði lokið árið 2020.

Sumarið 2015 samþykkti norska Stórþingið, með þverpólitískum meirihluta, að stofna fiskeldissjóð sem í renna greiðslur frá laxeldisfyrirtækjum fyrir úthlutun viðbótarheimilda jafnan þegar ákveðið er að auka kvótann.

Þannig efndu stjórnvöld fyrr í sumar til uppboðs á viðbótarheimildum og varð niðurstaðan sú að fjórtán fyrirtæki keyptu sér 15 þúsund tonna kvóta samtals fyrir alls 2,9 milljarða norskra króna. Sú fjárhæð samsvarar nærri 40 milljörðum íslenskra króna. Til stendur að bjóða upp enn fleiri viðbótarheimildir á næstunni.

Greiðslurnar eru hugsaðar sem gjald til sveitarfélaganna, sem laxeldisfyrirtækin greiða fyrir þá aðstöðu sem sveitarfélögin útvega þeim.

Tekjunum er skipt á milli fylkja og sveitarfélaga þannig að norsku fylkin fá 12,5 prósent en 87,5 prósent renna til sveitarfélaga.

Fyrsta úthlutun forsmekkur
Fyrsta úthlutunin úr sjóðnum var tilkynnt í desember síðastliðnum þegar 60 milljónir norskra króna, eða um 780 milljónir íslenskra, fóru til 164 sveitarfélaga og fylkja í Noregi.

„Úthlutunin í þessum umgangi er aðeins forsmekkur að því sem koma skal, því sveitarfélögin eiga von á miklu meiru,“ sagði Per Sandberg, sjávarútvegsráðherra Noregs, við það tækifæri.

Reiknað er með að árlega verði úthlutað úr sjóðnum, jafnan í október ár hvert.

Þær breytingar á sjóðnum sem nú eru til athugunar hjá stjórnvöldum snúast meðal annars um það, samkvæmt frásögn í norska Fiskeribladet, að ríkið fái í sinn hlut 20 prósent úthlutunarinnar ár hvert, fylkin fái 10 prósent en sveitarfélögin 70 prósent. Gjaldtakan verði þar með að hluta orðin skattlagning til ríkisins, en að hluta gjald fyrir aðstöðuna sem sveitarfélögin úthluta.

[email protected]

Myndartexti: Sveitarfélög í Noregi fá árlega úthlutað úr fiskeldissjóðnum. MYND/BH