Ef farið er að viðeigandi lögum og reglum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, auk reglna um rafræna vöktun, er heimilt að notast við rafrænt eftirlit í eigna- og öryggisvörsluskyni um borð í íslenskum fiskiskipum. Slíkt er þegar gert hjá mörgum fyrirtækjum hérlendis.

Þetta kemur fram í svari Persónuverndar við fyrirspurn Fiskifrétta um notkun eftirlitsmyndavéla um borð í íslenskum fiskiskipum. Í svari Persónuverndar kemur einnig fram að vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um að setja upp eftirlitsmyndavélar um borð í fiskiskipum, til að koma í veg fyrir brottkast á afla, þá ákvað Persónuvernd að eigin frumkvæði að senda Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Fiskistofu bréf (24. nóvember) þar sem minnt var á þau ákvæði laga sem eiga við um slíkt eftirlit. Persónuvernd fór þess á leit í bréfi sínu að SFS kæmi þeim upplýsingum á framfæri við öll fyrirtæki innan vébanda samtakanna.

Í bréfi Persónuverndar kemur meðal annars fram, með vísan til persónuverndarlaganna, að það myndefni sem verður til við vöktun má viðkomandi fyrirtæki, að óbreyttum lögum, eingöngu afhenda lögreglu komi upp grunur um refsiverðan verknað um borð í skipi – og því ekki beint til eftirlitsaðilans Fiskistofu. Eins sú skylda að fræða þá sem sæta vöktuninni um tilgang hennar, hverjir hafi eða kunni að fá aðgang að upplýsingum sem safnast, hversu lengi þær verða varðveittar og fleira.

Myndavélar nefndar
Tilefni bréfsins er ítarleg umfjöllun í fréttaskýringarþættinum Kveik um brottkast – en þar var einnig fjallað um vigtun afla og stöðu Fiskistofu til eftirlits. Þá sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi sjávarútvegsráðherra, að skoða þyrfti hvort ástæða væri til að setja upp eftirlitsmyndavélar um borð í fiskiskipum. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, sagði að þá tillögu skyldi skoða gaumgæfilega, og í viðtali á Rúv sagðist hún hafa „heyrt frá forsvarsmönnum útgerða sem séu þeirrar skoðunar að setja eigi upp myndavélar og vilji ekki sitja undir því að vera sakaðir um að brjóta lög með því að stunda brottkast.“

Gerð verður sérstök úttekt á Fiskistofu nú á nýju ári og frumvarp lagt fram sem á að taka á brottkasti og framhjálöndun, sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, í viðtali við Kveik um miðjan desember.

Ekkert nýtt
En þessar hugmyndir eru ekki nýjar af nálinni. Strax árið 2001 var myndavélaeftirlitskerfi sett upp í frystitogara Samherja, Baldvini Þorsteinssyni EA. Það var gert í þeim tilgangi að kanna hvort hægt sé að bæta eftirlit um borð, eins og Morgunblaðið greindi frá á sínum tíma.

Um var að ræða tilraunaverkefni á vegum Landssambands íslenskra útvegsmanna, forvera SFS, Samherja, sjávarútvegsráðuneytisins, Fiskistofu og Tæknivals þar sem kannað var hvort hægt væri að vera með fullnægjandi eftirlit um borð með myndavélum; hvort hægt væri að koma myndum til Fiskistofu sem nýttust sem fullgilt eftirlit.

Í frétt Morgunblaðsins sagði að verkefnið var að hluta til að frumkvæði Samherja til að sýna fram á að brottkast ætti sér ekki stað. Voru settar upp myndavélar á sex mismunandi stöðum í skipinu og myndefnið aðgengilegt í landi, hvort sem það var hjá fyrirtækinu, Fiskistofu eða öðrum.