Nýleg mæling á loðnustofninum gefur einungis 44 þúsund tonn í heildaraflamark í loðnu á vertíðinni 2015/2016, að því er fram kemur í frétt frá Hafrannsóknastofnun um niðurstöður úr loðnuleiðangri sem lauk fyrr í þessum mánuði. Alls mældust 610 þúsund tonn af loðnu í leiðangrinum, þar af var veiðistofninn 550 þúsund tonn. Sáralítið fannst af ungloðnu.

Bergmálsmælingar á loðnustofninum fóru fram á Árna Friðrikssyni dagana 16. september til 4. október 2015 með það að markmiði að mæla bæði stærð veiðistofns loðnu og magn ungloðnu. Mælingarnar á veiðistofni verða endurteknar í janúar/febrúar og þá verður aflamark reiknað á ný út frá niðurstöðum úr þeim mælingum.

Rannsóknasvæðið náði frá landgrunninu við Austur-Grænland frá um 73°30’N og suðvestur með landgrunnskantinum að 65° 30’N, en auk þess til Grænlandssunds og Norðurmiða, allt austur að Sléttu.

Loðna fannst víða í köntum og á landgrunni við Austur Grænland, í Grænlandssundi að landgrunnsbrúninni út af Vestfjörðum, en engin loðna fannst með landgrunnsbrún norðan Íslands. Lóðningar voru yfirleitt fremur gisnar.

Aðstæður til mælinga voru erfiðar, en rekís norðan 72°N torveldaði mælingu kynþroskahluta stofnsins, auk þess sem þrálát óveður torvelduðu bergmálsmælingu og sýnatöku með tilheyrandi áhrifum á framvindu og yfirferð.

Mjög lítið, eða um 6,2 milljarðar fiska, mældist af ókynþroska loðnu, en hún fannst einkum syðst á rannsóknasvæðinu, þ.e. við grænlenska landgrunnið vestan 23°V og út af Vestfjörðum vestan 25°V. Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) byggir ráðgjöf um veiðar á vertíðinni 2016/2017 á þessari mælingu á ungloðnu og ljóst er að engar veiðar verða heimilaðar að óbreyttu.

Nyrst á rannsóknasvæðinu við Austur-Grænland var einkum stór kynþroska loðna, en sunnar var hún smærri og meira blönduð ókynþroska fiski. Alls mældust 610 þúsund tonn af loðnu, þar af um 550 þúsund tonn af kynþroska loðnu (um 28,4 milljarðar fiska), sem gert er ráð fyrir að hrygni næsta vor. Fjöldi tveggja ára loðnu mældist 21,2 milljarðar, sem samsvarar um 390 þúsund tonnum og fjöldi þriggja ára loðnu um 6,7 milljarðar eða um 156 þúsund tonn.

Ný aflaregla, sem stjórnvöld ákváðu að taka upp síðastliðið vor, byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar með 95% líkum.

Tekur aflareglan tillit til óvissumats útreikninganna, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk þess sem afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu er metið. Þar sem mikil óvissa er í þessum mælingum leiðir aflareglan til þess að heildaraflamark á vertíðinni 2015/2016 verði 44 þúsund tonn.

Hafrannsóknastofnun leggur til að vel verði fylgst með loðnuveiðum vestan 18°V og að svæðum verði lokað verði vart við ókynþroska loðnu í afla.