Útflutningsverðmæti sjávarafurða á föstu meðalgengi ársins nam 240 milljörðum króna á síðasta ári – í erlendri mynt talið. Verðmætið jókst því um 34,5 milljarða króna milli ára eða 16,8%, þegar þessi mælikvarði er settur á útflutning með sjávarfang.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða á föstu nafngengi hefur ekki áður mælst jafn mikið ef horft er allt aftur til ársins 1961. Næstmesta útflutningsverðmætið var árið 2015 en uppfrá því ári tók krónan að styrkjast verulega og lækkaði útflutningsverðmætið mælt í krónum töluvert. Gengisvísitala krónunnar var 167 stig að meðaltali á síðasta ári borið saman við 160 stig árið 2017 og var þetta í fyrsta skiptið síðan árið 2012 að gengi krónunnar veiktist milli ára.

Minna á þessu ári

Samkvæmt Hagsjánni verður að teljast líklegt að veiðar á þessu ári verði minni en í fyrra og helgast það af óvenjumiklum veiðum í fyrra vegna sjómannaverkfallsins 2017 og því að færa mátti hluta af aflaheimildum milli áranna 2017 og 2018 af sömu ástæðu. Það verði því að teljast líklegt að verðmæti sjávarafurða á þessu ári verði nokkuð minna en í fyrra mælt bæði í krónum og erlendri mynt. Þessu til viðbótar má bæta að eins og staðan er í dag verða ekki heimilar neinar veiðar á loðnu en útflutningsverðmæti loðnu nam 17,8 milljarðar króna á síðasta ári.