*

mánudagur, 10. desember 2018
Innlent 28. september 2017 19:38

Spá óbreyttum stýrivöxtum

Pólitísk óvissa gæti gert það að verkum að peningastefnunefnd muni halda að sér höndum og halda vöxtum óbreyttum.

Pétur Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kemur til með að tilkynna um stýrivaxtaákvörðun 4. október næstkomandi. Bæði Hagfræðideild Landsbankans og Greiningardeild Arion banka gera ráð fyrir því að Seðlabankinn haldi vöxtum óbreyttum í 4,5%. Greiningaraðilar vísa til óvæntra slita ríkisstjórnarinnar og aukinnar óvissu í rökstuðningi sínum. 

Greiningardeild Arion banka bendir þó á að verðbólga sé enn vel undir markmiði og mælist 1,4%. „Ýmis teikn eru á lofti um að hún verði áfram lítil næstu mánuði m.a. vegna hægari húsnæðisverðshækkana. Sökum þess og minni hagvaxtar virðist sem vextir Seðlabankans gætu lækkað lítillega á næstu mánuðum,“ segir í greiningu bankans. 

Ekkert sérstakt tilefni til vaxtalækkanna

Hagfræðideild Landsbankans telur að nýjar hagmælingar kalli ekki sérstaklega á lækkun vaxta. „Verðbólga á þriðja ársfjórðungi reyndist ögn minni en bankinn spáði í ágúst síðastliðnum. Þannig var verðbólgan 1,65% en Seðlabankinn hafði spáð 1,8%.

Gengi krónunnar hefur styrkst örlítið frá síðustu vaxtaákvörðun en það veiktist töluvert milli síðustu tveggja funda. Frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi hafa komið fyrstu tölur um þjóðhagsreikninga á öðrum fjórðungi. Þær gefa ekkert sérstakt tilefni til þess að lækka vexti nú. Sem dæmi var vöxtur einkaneyslu á 12 mánaða grundvelli á fjórðungnum 9,5% sem er töluvert meira en Seðlabankinn spáir að verði fyrir árið í heild sinni,“ segir í greiningu bankans.