Miðað við hvað sést á sölutölum þá er bílamarkaðurinn í slæmri stöðu með u.þ.b. 50-60% samdrátt frá sama tíma á síðasta ári og rafbílamarkaðurinn í enn verri stöðu með yfir 70% samdrátt,“ segir Úlfar Hinriksson, forstjóri Suzuki umboðsins.

Bílablað Viðskiptablaðsins leitaðist eftir viðbrögðum frá sjö forstjórum á bílamarkaði en hægt er að lesa viðbrögð hinna sex hér.

,,Gjaldabreytingar á rafbílum hafa haft verulega neikvæð áhrif á sölu þeirra, má þar nefna 5% vörugjaldið, niðurfellingu á vsk afslætti og kílómetragjaldið sem hefði mátt bíða þannig að allir bílar væru að greiða það á sama tíma. 

Því miður lítur það þannig út núna að 2024 verði með verri bílaárum. Óvissa í þjóðfélaginu spilar inn í auðvitað líka. Það er búin að vera verðbólga og lán eru há hvort sem það eru húsnæðislán eða bílalán,“ segir hann.

Úlfar segir að dísilbílar og tengiltvinnbílar hafi staðið sig einna best í sölu sem á árinu sem sé vissulega athyglisvert.

,,Það eru óneitanlega skrítnar ráðstafanir hjá ríkinu að fara út í þessar breytingar að skattleggja rafbíla og tengiltvinnbíla ef á að halda áfram með orkuskiptin. Síðan er viðbúið að ríkið setji skatt á dísil-, bensín- og tvinnbíla á næstunni.

Af hverju skattlögðu stjórnvöld þá ekki alla bíla í einu fyrst þau voru að þessu á annað borð. Það er alveg ljóst að allur bílamarkaðurinn skekkist við þetta. Þessar ráðstafanir rugla fólk svo mikið í rýminu,“ segir Úlfar ennfremur.

Bílar, sérblað Viðskiptablaðsins, kom út í gær. Áskrifendur geta lesið viðtölin við forstjóra bílaumboðanna hér. Einnig geta áskrifendur lesið blaðið í heild sinni á vefnum.