Kostnaður vegna rafbíla tók miklum breytingum um síðustu áramót þegar ívilnanir vegna greiðslu á virðisaukaskatti féllu niður. Sú ívilnun gat náð hámarki 1.320.000 kr.

Þá settu stjórnvöld á 6 krónu gjald fyrir hvern ekinn kílómetra fyrir hreina rafbíla og 2 krónur fyrir tengiltvinnbíla.

Núna er hægt að sækja um skattfrjálsan styrk að upphæð 400-900 þúsund krónur úr Orkusjóði til kaupa á rafbíl. Enginn styrkur er greiddur fyrir rafbíla sem kosta meira en 10 milljónir króna.

Kílómetragjald er innheimt mánaðarlega og miðast við meðalakstur. Samdráttur í bílasölu á fyrstu þremur mánuðum ársins nemur um 60% miðað við sama tíma í fyrra.

Samdráttur í sölu á rafbílum er um 70% miðað við sama tímabil samkvæmt tölum frá Bílgreinasambandinu.

Helmingur seldra bíla á síðasta ári voru rafbílar og var hlutfallið yfir 90 prósent ef bílaleigur eru ekki teknar með í reikninginn. Við spurðum forstjóra bílaumboðanna hvernig þeim líst á stöðuna á markaðnum og hvaða áhrif þeir telja kílómetragjaldtaka stjórnvalda hafa á bílamarkaðinn.

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.
© BIG (VB MYND/BIG)

Tímabundið bakslag á Íslandi

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segir að breyting íslenskra stjórnvalda á gjöldum vegna rafbíla hafi fengið suma til að efast um heilindi þeirra við orkuskiptin.

„Það stefnir í metsölu og hlutdeild rafbíla á heimsvísu en líklegt er að seldir verði 17 milljónir rafbíla á árinu og hlutdeildin verði 20%. Vöxturinn verður í Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu, Kína, Ástralíu, Suður-Ameríku og Afríku.

Nokkuð hefur verið um falsfréttir af minnkun sölu rafbíla á heimsvísu en hið rétta er að það hægir aðeins á hinum gríðarlega vexti, eðlilegt fyrir nýja vöru. Salan byrjar rólega, þá tekur við gríðarlegur vöxtur og hlutdeild nýju vörunnar vex en í kjölfarið hægir á vextinum semnær jafnvægi“

Egill bendir á að í Evrópu að Bretlandi og EFTA-löndunum meðtöldum jókst rafbílasala á fyrsta fjórðungi og seldust 448 þúsund rafbílar og hlutdeildin var 13,2%. Í Bandaríkjunum jókst rafbílasala einnig og seldust 269 þúsund rafbílar og var hlutdeildin 7,3%.

,,Breytingar stjórnvalda á gjöldum rafbíla hafa sáð efasemdum um heilindi þeirra við orkuskiptin enda lagt stein í götu almennings og fyrirtækja við rafbílakaup. En þrátt fyrir það er staðreyndin sú að aksturskostnaður rafbíls, ef horft er til orkukostnaðar og viðhalds miðað við meðalakstur heimilis, er allt að 75% lægri miðað við bensínbíl.

Ástæðan er einstök hagkvæmni rafmótorsins og hagstætt verð á íslenskri, endurnýjanlegri raforku. Rafbílasala hefur minnkað um 70,8% og hafa aðeins 636 rafbílar verið nýskráðir á árinu sem er 22,9% hlutfall.

Á sama tíma í fyrra voru nýskráðir 2.176 rafbílar og var hlutdeild þeirra 38,2% og árið 2023 var hlutfallið 49,8%. Aðrar þjóðir taka framúr Íslandi sem hefur fallið úr öðru sæti í það fimmta.

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

„Árið verður erfitt í rafbílasölu en bakslagið er tímabundið og ekki aftur snúið með rafbílavæðinguna. Áform stjórnvalda um allan heim eru skýr, bílaframleiðendur hafa fært stóran hluta þróunarfjármagns yfir í rafbíla og einnig framleiðendur bílarafhlaða.

Í desember 2017 voru nýskráðir rafbílar á Íslandi aðeins 25 af 11 gerðum en sex árum síðar voru þeir 1.423 af 77 gerðum sem er sjöföldun gerða og 57-földun nýskráninga,” segir Egill.

,,Bakslagið á Íslandi er mjög slæmt og frestar gríðarlegum ávinningi íslensks samfélags af orkuskiptum í vegasamgöngum. Það dregur einnig úr möguleikum Íslands til að draga úr heildarlosun enda vegasamgöngur ábyrgar fyrir 33% af losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda.

Því má líta á rafbílaaðgerðir stjórnvalda sem vanrækslu þegar kemur að því að uppfylla alþjóðlegar og eigin skuldbindingar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Það er sérstaklega áhugavert í ljósi nýfallins dóms Mannréttindadómstóls Evrópu gegn Sviss þar sem stjórnvöld þar töpuðu máli sökum vanrækslu við að fylgja eftir loftslagsmarkmiðum með raunverulegum aðgerðum,“ segir Egill ennfremur.

Bílar, sérblað Viðskiptablaðsins, kom út í gær. Áskrifendur geta lesið viðtölin við forstjóra bílaumboðanna hér. Einnig geta áskrifendur lesið blaðið í heild sinni á vefnum.