Heilbrigðismál eldisfiska voru heilt yfir með allra besta móti hér á landi á árinu 2020, að því er fram kemur í ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma: „Engir nýir alvarlegir smitsjúkdómar gerðu vart við sig og þá hefur mikið áunnist í útrýmingu nýrnaveiki sem var eldisgreininni fremur strembin um árabil.“

Í skýrslunni segir að þeir smitsjúkdómar sem helst valda tjóni hér á landi séu af völdum baktería, en ytri sníkjudýr komi líka við sögu.

„Eins og við var að búast hefur aukið umfang laxeldis í sjókvíum á Vestfjörðum búið í haginn fyrir ofangreind sníkjudýr og þau eiga nú auðveldara um vik er kemur að tímgun og viðgangi.“

Reglubundnar talningar

Eldisstöðvarnar hafi vaktað þróunina með reglubundnum lúsatalningum á þeim tíma sem sjávarhiti er yfir fjórum stigum.

„Hvað laxalús varðar kom í raun aldrei upp sú staða að nauðsyn væri á meðhöndlun miðað við fjölda lúsa í sjókvíum.“

Hins vegar hafi mál æxlast þannig í Arnarfirði í byrjun sumars „að skynsamlegt þótti að ljá máls á að heimila aðgerð til að fyrirbyggja að lús næði að fjölga sér um of í öllum firðinum.“

MAST veitti heimild til böðunar með lyfinu Alpha Max við Tjaldanes.

„Böðun var framkvæmd í byrjun júní 2020 og var þetta jafnframt í fimmta sinn sem staðbundin meðhöndlun gegn laxalús er heimiluð á Vestfjörðum.“

Hvergi vart við nýsmit

Þá segir að nýrnaveiki í laxi og bleikju hafi verið helsta ógn og mesti tjónvaldur fiskeldis hér við land, en annað árið í röð „varð hvergi vart við nýsmit af völdum bakteríunnar í eldisstöðvum og var dreifingarbanni aflétt af þremur seiðaeldisstöðvum sem glímt hafa við smit á liðnum árum. Þá hætti ein eldisstöð öllu áframeldi á bleikju, en sú stöð hafði glímt við áralangt smit.“

Fram kemur að vorið 2017 hafi, í kjölfar aukins laxeldis samfara einmuna tíð og óvenju hlýjum sjó yfir vetrarmánuðina, fyrst mátt greina „fjölgun laxalúsar á vissum svæðum á Vestfjörðum, en á Austfjörðum hefur engin breyting átt sér stað og nánast enga laxalús verið að finna. Síðastliðin þrjú ár hefur sjávarhiti aftur nálgast fyrra horf og laxalúsin gefið eftir að sama skapi, en á vissum svæðum fyrir vestan þarf að vera á varðbergi.“

40.000 tonna múrinn að falla

Í skýrslunni kemur fram að alls hafi verið slátrað 40.595 tonnum af eldisfiski á liðnu ári og heildarframleiðslan hafi aukist um 20% á milli ára: „Þar vó þyngst um 7.000 tonna aukning á laxi úr sjókvíaeldi sem í fyrsta sinn rauf 30.000 tonna múrinn.“ Reikna megi með því að framleiðsla í laxeldi rjúfi 40.000 tonna múrinn á þessu ári.

Alls voru 53 eldisstöðvar í rekstri á liðnu ári og af þeim voru fjórar með lax í sjókvíum í 7 fjörðum og þrjár með regnbogasilung í sjókvíum í 3 fjörðum. Öll önnur eldisfyrirtæki voru með starfsemi sína á landi í ýmsum útfærslum.. Dýralæknar fisksjúkdóma fóru í alls 126 eftirlits- og sýnatökuheimsóknir á árinu.