Forstjóri Hafrannsóknastofnunar fagnar auknu framlagi úr ríkissjóði til að tryggja reksturinn sem hefur verið ótryggur undanfarin misseri. Hann gagnrýnir þó flata hagræðingarkröfu sem ekki beri vott um forgangsröðun.

Kristján Þór Júlíusson, landbúnaða- og sjávarútvegsráðherra, varpaði fram á ársfundi Hafrannsóknastofnunar þeirri hugmynd að stjórnvöld, Hafrannsóknastofnun og fyrirtæki í sjávarútvegi hefji samstarf um heildstæða rannsókn á þróun vistkerfisbreytinga í hafinu umhverfis landið.

Setta verði fram sviðsmyndir um mögulega þróun og þannig reynt að fá betri skilning á þessum breytingum og samspili ólíkra þátta í lífríki hafsins.

„Slíkt verkefni þyrfti að vinnast í öflugri samvinnu stjórnvalda með hafrannsóknastofnun í broddi fylkingar ásamt með fyrirtækjum í íslenskum sjávarútvegi,“ sagði ráðherrann.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, fagnaði þessari hugmynd.

Hafrannsóknastofnun hefur lengi lagt áherslu á mikilvægi þess að efla hafrannsóknir umhverfis landið, ekki síst í ljósi þeirra miklu breytinga sem nú eiga sér stað í hafinu.

Loðnuveiðar gætu lagst af

Í ávarpi sínu á ársfundinum sagði Sigurður að nú þegar sjáist miklar breytingar á vistkerfunum og á nytjastofnum.

„Hvað útbreiðslu varðar færast flestar tegundir norður. Sem dæmi stækkaði stofn makrílsins og færðist norður og inn í íslenska lögsögu sem hefur verið hagfellt okkur. Á hinn bóginn færðist útbreiðsla loðnu enn norðar og stofn hennar hefur minnkað mikið. Þetta þýðir að á komandi árum muni loðnuveiðar minnka eða jafnvel leggjast af. Það er enn meira áhyggjuefni þar sem loðnan er mikilvægasta fæða þorsksins og fleiri fiskstofna. Því er sem aldrei fyrr afar mikilvægt að vakta ástand hafsins og nytjastofna þess,“ sagði Sigurður.

„Ef vel ætti að vera þyrfti að stórauka þessar rannsóknir til að reyna að sjá fyrir þær breytingar sem án efa munu eiga sér stað á komandi árum. Á grunni þekkingar er auðveldara að bregðast við breytingunum og aðlaga samfélagið að þeim.“

Bæði Sigurður forstjóri og Kristján Þór ráðherra komu inn á fjárveitingar til stofnunarinnar, sem hafa verið ótryggar á síðustu árum.

Dregið úr óvissu

Sigurður sagði stofnunina hafa verið háða framlögum úr ýmsum sjóðum ríkisins, og hafi þar mest munað um framlög úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins.

„Við skyndilegt greiðslufall þessa sjóðs í fyrra lentum við í miklum vandræðum.“

Ríkið hefur nú bætt úr þessum vanda með 150 milljóna viðbótarframlagi, sem gert er ráð fyrir í nýju fjárlagafrumvarpi.

„Það framlag kemur til viðbótar 250 milljón króna framlagi á þessu ári,“ sagði Kristján Þór á ársfundinum. „Með þessu fasta framlagi, alls um 400 milljónum króna, mun stofnunin ekki lengur þurfa að reiða sig á breytileg framlög úr verkefnasjóði sjávarútvegsins með tilheyrandi óvissu fyrir starfsemina.“

Ráðherran sagði þessa breytingu draga úr óvissu um fjármögnun stofnunarinnar, en tók þó fram að „þrátt fyrir það þá þarf hún líkt og aðrar stofnanir ríkisins að takast á við þá hagræðingarkröfu sem sett er í fjárlögum hvers árs, enda er sú sjálfsagða krafa gerð á allar stofnanir ríkisins að þurfa stöðugt að huga að forgangsröðun verkefna og gæta aðhalds í rekstri.“

Veldur áhyggjum

Forstjórinn kom einnig inn á þessa hagræðingarkröfu og sagði hana valda áhyggjum hjá stofnuninni.

„Ég ætla nú að gerast svo djarfur að tala um flatan niðurskurð sem ber kannski ekki mikinn vott um forgangsröðun,“ sagði Sigurður. „Eins og fram kom hjá ráðherra er skýr vilji til að efla hafrannsóknir og umhverfisrannsóknir og þá vildum við gjarnan sjá að þessari hagræðingarkröfu yrði aflétt að minnsta kosti um stund af okkur.“

Jafnframt sagðist Sigurður vilja minna ráðherrann á að laga þurfi þann halla sem myndaðist hjá stofnuninni á síðasta ári og þessu vegna brottfalls Verkefnasjóðsins.

Árfsundurinn á föstudag var sá fyrsti í sögu stofnunarinnar, en þrjú ár eru síðan ný sameinuð stofnun varð til úr Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun.

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 26.september