„Þetta slapp til þótt veðrið væri kolvitlaust. Við vorum með 65 tonn eftir stuttan tíma á miðunum. Því miður urðum við að fara fyrr til hafnar en ráð var fyrir gert, vegna smá bilunar,” segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK, í frétt á heimasíðu Brims.

Helga María er nýkomin aftur á flot eftir stóra klössun sem gerð var í Reykjavík, en m.a. var skipt um stál í skipinu á kafla, aðalvélin tekin upp að hluta auk þess sem skipið var málað að nýju. Alls tók klössunin um mánuð.

Togarinn er nú að veiðum á Fjöllunum SV af Reykjanesi og segir Friðleifur að aflinn sé svipaður og í fyrri veiðiferðinni, enda er veiðisvæðið það sama.

„Það er gott veður núna og þægilegt að stunda veiðarnar. Uppistaða aflans er gullkarfi og svo er það alltaf spurning hvort maður hitti á ufsann. Hann hefur verið aukaafli með karfanum fram að þessu en það getur breyst fyrirvaralaust, eins hendi sé veifað,” segir Friðleifur.