„Við erum rétt að sjá toppinn á ísjakanum og þetta verður eiginlega verra eftir því sem maður sér meira,“ segir Brynhildur Benediktsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu, sem hefur verið að kynna sér hertar kröfur Bandaríkjanna til innflutnings á sjávarafurðum.

Kröfur Bandaríkjamanna lúta að vernd sjávarspendýra við fiskveiðar og fiskeldi. Í bandarískum lögum eru ákvæði sem banna innflutning á sjávarafurðum frá þjóðum sem ekki hafa sömu eða sambærilegar reglur og Bandaríkin varðandi verndun sjávarspendýra við veiðar og eldi.

Brynhildur segir þó flest óljóst ennþá um það hvaða áhrif þessar bandarísku reglur muni í reynd hafa, því bæði virðast bandarísk stjórnvöld ekki hafa útfært það fyllilega ennþá hvernig þau ætli sér að standa að framkvæmdinni, og svo hefur reynst erfitt að fá greinagóðar upplýsingar frá þeim.

„Þeir vísa bara á netið, þangað setji þeir allar upplýsingar,“ segir Brynhildur.

Hún er nýkomin af fundi með embættismönnum frá Grænlandi, Færeyjum og Noregi. Þar ræddu þau meðal annars þessar nýju kröfur frá Bandaríkjunum, og reyndu að fá botn í það sem í vændum gæti verið.

Vernd sjávarspendýra
Forsagan er sú að snemma á áttunda áratugnum settu Bandaríkin sér harla ströng lög til verndar sjávarspendýrum sem meðal annars fela í sér að tryggja beri að sjávarspendýr hvorki drepist né beri skaða af fiskveiðum og fiskeldi . Ólíkar tegundir veiðarfæra og veiðisvæða eru flokkaðar eftir því hvort mikil eða lítil hætta þykir á því að sjávarspendýr drepist, eða skaðist við veiðar. Einungis þær veiðar flokkast sem undanskildar þar sem sáralítil eða nánast engin hætta þykir stafa af fyrir sjávarspendýr. Einnig mun alfarið vera ólöglegt að skjóta eða skaða sjávarspendýr við fiskeldiskvíar.

Þessi lög, sem nefnast Marine Mammal Protection Act, voru upphaflega sett árið 1972. Árið 2016 var síðan virkjað svokallað innflutningsákvæði, sem setur öðrum ríkjum þau skilyrði að þau setji sér sömu eða sambærilegar reglur við veiðarnar eins og Bandaríkin gera. Verði aðrar þjóðir uppvísar að því að sjávaspendýr veiðist til dæmis sem meðafli í veiðarfæri í nokkru magni verða þær þjóðir að leggja fram áætlun um hvernig taka eigi á vandanum og gera grein fyrir eftirfylgni, að öðrum kosti eiga þær á hættu að missa leyfi til að flytja sjávarafurðir inn til Bandaríkjanna.

Frestur til 2022
Gefinn hefur verið út bráðabirgðalisti með mati á veiðum og eldi allra þeirra þjóða sem selja sjávarafurðir til Bandaríkjanna. Þar eru veiðarnar flokkaðar í veiðar sem eru undanskildar banni (excempt) og veiðar til útflutnings (export fisheries), eftir því hverjar líkur eru á meðafla sjávarspendýra.

Bráðabirgðalistinn er byggður á upplýsingum sem allar þjóðir sem selt hafa sjávarafurðir inn á þeirra markað síðustu ár sendu inn, varðandi veiðar þeirra tegunda, sem og veiðar annarra tegunda sem hugsanlega yrðu fluttar þangað. Frestur til að veita fyrstu upplýsingar var í apríl og skila mátti athugasemdum við mat á fyrstu upplýsingum í október 2017. Innflutningsreglurnar munu hins vegar taka gildi í upphafi árs 2022. Algerlega óljóst er því enn hvaða þýðingu þetta getur haft fyrir íslenskan sjávarútveg, en ráðuneytið er nú þegar byrjað að kynna málið fyrir fulltrúum íslensks sjávarútvegs.

Á aðalfundi Landssambands smábátaveiðimanna, sem haldinn var 19. og 20. október, komu fram áhyggjur af því að þessi bandarísku lög gætu haft afdrifarík áhrif hér á landi. Fyrir aðalfundinum lágu tillögur um að heimila smábátum að stunda netaveiðar.

Sú tillaga var naumlega felld á fundinum, en í umræðum kom fram að fari Bandaríkjamenn sínu fram í þessu mætti jafnvel búast við því að Íslendingar þyrftu hvort eð er að hætta alveg netaveiðum. Að öðrum kosti myndu Bandaríkin hreinlega hætta að kaupa af okkur fisk.

Efla þarf skráningu meðafla
Að sögn Brynhildar virðist að minnsta kosti stefna í að þessar nýtilkomnu kröfur geti haft áhrif á netaveiðar smábáta hér á landi, enda er langstærstur hluti meðafla sjávarspendýra við fiskveiðar á Íslandsmiðum í net. Það eru þá þorskveiðar og grásleppuveiðar.

Einnig sé nokkuð ljóst að Íslendingar þurfi nú að ráðast í nákvæma skráningu á meðafla sem og mat á stofnstærð sela og hvalategunda. Skráningu meðafla hefur verið verulega ábótavant hér á landi frá því að rafrænar afladagbækur voru teknar í notkun. Ef meta eigi á meðafla sjávarspendýra verði að byggja á áreiðanlegum gögnum, endaljóst að bandarísk stjórnvöld muni meta sjálfstætt hvort þau telji gögn nægilega nákvæm, að öðrum kosti muni þau nota upplýsingar um „sambærilegar“ veiðar eigin skipa og áætla áhættu fyrir sjávarspendýr samkvæmt því fyrir íslensk skip.

Í skýrslu frá Hafrannsóknarstofnun um meðafla sjófugla og sjávarspendýra í fiskveiðum á Íslandsmiðum, frá árinu 2015, segir að mat stofnunarinnar á meðafla sé byggt á takmörkuðum gögnum sem auka þurfi og bæta með virku skráningarkerfi fyrir sjómenn og meiri eftirfylgni.

Árið 2016 seldu Íslendingar sjávarafurðir til Bandaríkjanna fyrir nærri 19 milljarða króna, og voru Bandaríkin í fjórða sæti yfir helstu útflutningslönd sjávarafurða okkar, næst á eftir Bretlandi, Frakklandi og Spáni.