Verið er að landa úr frystitogaranum Blængi NK í Norðfjarðarhöfn. Skipið var 26 daga að veiðum og er afli þess um 480 tonn að verðmæti um 220 milljónir króna.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði frétta.

„Við hófum túrinn hérna fyrir austan og reyndum þar við grálúðu. Síðan var haldið á Vestfjarðamið og þá var veitt á Halanum og í Víkurál. Síðan kom leiðindaveður fyrir vestan og þá var farið austur fyrir landið á ný. Fyrir vestan var þokkaleg veiði þar til brældi og þar fékkst blanda af þorski, karfa og ufsa. Fyrir austan var veðrið mun betra, bara dálítill kaldi,“ segir Bjarni Ólafur.

Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða síðdegis á morgun.