Þorlákur G. Halldórsson var kosinn formaður Landssambands smábátaeigenda á síðasta aðalfundi. Axel Helgason hafði verið formaður í þrjú ár og ákvað að gefa ekki kost á sér áfram.

„Þetta var rétti tímapunkturinn fyrir mig af því maður er að draga saman seglin í útgerðinni,“ segir Þorlákur, sem á og rekur harðfiskverkun í Grindavík, tvær raunar frekar en eina. Önnur er Stjörnufiskur og hin er Hvammfiskur sem hann keypti frá Hrísey.

„Það gengur allt vel. Við erum með mjög gott fólk og ég er með mann sem stjórnar þessu fyrir mig þa. Þess vegna gat ég líka tekið að mér þetta embætti. Maður er ekki ómissandi alls staðar, sem var nú ekki tilgangurinn. Þannig að fyrst það æxlaðist svona að Axel væri að hætta þá var annað hvort að fara í þetta núna eða aldrei.“

Hann hefur einnig gert út á smábátum frá Grindavík í um það bil tuttugu ár, byrjaði fyrst með lítinn Sómabát á handfærum og línu.

„Mestmegnis var ég á línu á þessu pínulitla horni mínu þá. Þannig byrjuðum við hjónin, það var óskaplega gaman.“

Þau létu síðan smíða stærri bát árið 2003, Guðmund á Hópi, sem þau áttu í tvö ár.

„Þá smíðuðum við annan sem var með beitningarvél um borð. Það var held ég bátur númer tvö eða þrjú sem beitningarkerfi var sett upp í. Við vorum hálfgerðir brautryðjendur í því, og það svínvirkaði alveg. Þetta var bylting til að byrja með og nú eru langflestir komnir með beitningarvélar í þessa litlu báta.“

Að sama skapi fækkar þeim sem nota línuívilnun, en Þorlákur gerði það samt í nokkur ár að gera út tvo báta og hafa annan á bala en hinn með beitningarvél.

Þorlákur gerir nú út Guðmund á Hópi, smíðaðan 2005.

„Það var stærsti báturinn í eitt eða tvö ár, en þá mátti þetta ekki vera sentímetra stærra. Svo að sjálfsögðu stækkaði næsti bátur aðeins. Það er búið að teygja og beygja þessar reglur svo að maður hefur aldrei getað skilið það.“

Stóra breytingin varð síðan þegar stærðarmörkin voru færð upp í 30 brúttótonn.

„Það nú svona bæði kostir og gallar við, en þetta er samt aðalmeinið í dag sem er að fækka smábátunum. Þessir bátar kosta 300 til 300 milljónir í dag, að smíða þá, og það er bara á færi stóru útgerðanna að hafa bolmagn til þess. Þetta á ekkert skylt við einyrkjaútgerð sem Landssambandið hefur verið byggt upp á í gegnum áratugina. Þessar útgerðir þurfa gríðarlegar heimildir og þær eru hreinlega að sópa þessu öllu til sín. Ég get ekki séð hvernig hægt væri að snúa þeirri þróun við.“

Þorlákur þekkir því vel til, var varaformaður LS í tvö ár og í nokkur ár var hann formaður félags smábátaeigenda á Reykjanesi. Verkefnin á vettvangi smábátasjómanna eru óþrjótandi og Þorlákur ætlar að standa vörð um sína menn.

„Það sem ég vil beita mér fyrir er að einyrkinn fái að lifa. Hann á verulega undir högg að sækja í dag,“ segir Þorlákur, „og þó það heiti kannski væll þá er það bara þannig að veiðileyfagjöldin eru búin að steindrepa einyrkjann. Þau eru vitlaus reiknuð og hafa verið mörg ár. Þó þetta hafi verið lagað þá má gera betur því þetta er dýrt útgerðarmynstur. Maður spyr sig hvort það sé hreinlega vilji þingmanna og annarra að þessi útgerð verði horfin fyrir rest. Ef það er þeirra sýn þá mega þeir bara segja það, en það stefnir allt þangað.“