Rúmlega helmingur enskra aflaheimilda hafa verið seldar útlendum útgerðarfyrirtækjum. Um er að ræða 130.000 tonn af fiski og virði hans á markaði er um 160 milljónir punda eða um 30 milljarðar íslenskra króna.

Þetta leiðir úttekt BBC í ljós og er fjallað um í ítarlegri fréttaskýringu þar sem þeirrar spurningar er spurt hver eigi raunverulega fiskveiðiheimildir Englendinga og hvort útgangan úr Evrópusambandinu þýði að þeir sjálfir komi til með að eiga réttinn til veiða óskiptan, eins og haldið hefur verið fram.

Fyrirtækin sem hafa tryggt sér fiskveiðiheimildirnar eru frá Íslandi, Spáni og Hollandi, segir í fréttaskýringu BBC. Er á það bent að árið 2019 héldu útgerðarfyrirtæki utan Englands á 55% heimildanna í virði talið. Er á það minnt að þegar Brexit var ennþá bitbein þarlendra var því haldið fram að endurheimt þessara réttinda væru stór hluti af aðskilnaði við ESB – en því jafnframt haldið fram að það sé erfiðara en margur heldur. Heimildirnar verði áfram í eigu þeirra sem keypt hafa og svo verði áfram nema stjórnvöld, eða fyrirtæki þar í landi, séu tilbúin til að kaupa réttindin af þeim sem halda á þeim núna.

Uppspretta deilna

Kvótarnir sem um ræðir eru uppspretta deilna á milli Englendinga og Evrópusambandsþjóðanna. Mörg ESB-landanna nota kvótana sem skiptimynt í þeim skilningi að þeir nýtast sem fiskveiðistjórnunartæki. Þá er ákveðið hvað þjóðirnar mega veiða mikið af tilteknum tegundum á sameiginlegu hafsvæði og eru hluti af sjálfbærnihugsjón hinnar sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB. Því hefur allan tímann verið haldið fram af stjórnvöldum að sjálfstæði þeirra frá ESB muni þýða að rétturinn til veiða innan lögsögu Breta verði þeirra óskiptur. Úttekt BBC hrekur þá fullyrðingu, að því verður best séð.

Óljóst og loðið

Í frumvarpi stjórnvalda, sem liggur nú fyrir þinginu, er ekkert sem bendir til þess að stjórnvöld ætli sér að „endurheimta“ aflaheimildirnar úr höndum erlendra útgerða. BBC segir að orðfærið sem þar er notað lúti að því að endurskoða og „styrkja reglur“ um erlent eignarhald, en lítið hægt að ráða í það hvað texti frumvarpsins vísar til nákvæmlega. Núgildandi reglur kveða á um að útgerð sem á kvóta þurfi að hafa „efnahagsleg tengsl“ við Bretland. Sem er til dæmis löndunarskylda eða að þarlendir sjómenn eiga rétt á plássi hjá þeim skipum sem veiða kvótana. Nú virðist breytingin snúa að því að meiru af afla hvers skips sé landað í Bretlandi og efnahagslegt vægi veiðanna innan þeirra lögsögu aukist. Þetta gengur ekki nógu langt að mati margra þeirra sem börðust fyrir Brexit, og vildu fiskinn heim. Samtökin Fishing for Leave vilja til dæmis breyta reglum þannig að öll skip sem veiða þessa kvóta skuli verða 60% í breskri eigu, 60% skipverja skuli vera Bretar og 60% fisksins skuli landað og unninn á heimaströnd.

Eiga enn sinn fisk

Þó er dæmið flóknara en svo að þetta eigi við um allt Bretland jafnt. England hefur selt frá sér rúmlega helminginn, eins og áður segir. En Skotar eiga ennþá sinn fisk að langstærstum hluta og það sama á við um Norður-Írland. England og Wales eru með svipaða stöðu, en þaðan kom afdráttarlausasti stuðningurinn við Brexit. Skotar eiga hins vegar 60% af breska kvótanum en aðeins fjögur prósent af hlutdeild þeirra er í höndum útlendinga.