Færeyinginn Óli Samró þekkja margir hér á landi, ekki síst eftir að hann gaf út bókina sína Fiskveiðar – fjölbreyttar áskoranir. Hún kom út á færeysku árið 2016 og í íslenskri þýðingu árið eftir. Í þeirri bók eru teknar saman upplýsingar um fiskveiðistjórnun um heim allan og mismunandi stjórnkerfi fiskveiða borin saman.

Nú hefur hann, ásamt syni sínum Hanus Samró, sett upp vefinn Fishfacts.fo þar sem er að finna upplýsingar um 3.000 fiskiskip, kvótastöðu þeirra, eigendur og fjárhag. Einnig eru þar upplýsingar um framleiðendur veiðarfæra og önnur fyrirtæki sem útvega fiskiskipum búnað og þjónustu hvers kyns.

„Ég hef verið að vinna í þessum málum í 29 ár sem ráðgjafi eða sérfræðingur,“ segir Óli.

„Þegar ég hafði klárað bókina hafði ég farið í gegnum öll fiskveiðistjórnunarkerfi heimsins. Ég hafði skoðað hverjir eiga kvótann og allt slíkt, og þá hugsaði ég með mér: Við skulum búa til gagnagrunn yfir öll fiskveiðiskip heimsins. Síðan hófst ég handa með syni mínum og þetta var í grunninn byggt á ýmsum verkefnum sem ég hafði unnið að í 25 ár.“

Spurðu skipstjórana

Þeir feðgar tengja upplýsingarnar við kortavef svipaðan Marinetraffic.com, sem þeir hafa sjálfir með aðstoð forritara hannað.

„Við báðum tíu skipstjóra frá Færeyjum, Íslandi, Grænlandi, Kanada, Noregi, Danmörku að segja okkur hvað þeir þyrftu, hvað þeir hefðu áhuga á að sjá. Við byggðum svo upp skipaleitarvef svipað og Marinetraffic og allar hinar síðurnar. Þetta var allt saman byggt upp á óskum skipstjóranna, þannig að þeir sögðu okkur hvað þeir þyrftu. Síðan byrjuðu þeir að nota þetta og það fréttist síðan á milli manna, frá skipstjóra til skipstjóra.“

Óli segir að skipstjórarnir hafi verið mjög ánægðir með kortið, sem er sérstaklega hannað fyrir stærri báta sem stunda fiskveiðar. Þeir feðgar ætla að mæta á Íslensku sjávarútvegssýninguna til að kynna vefinn, en hún verður næst haldin haustið 2021.

„Nú erum við með notendur út um allan heim,“ segir Óli og telur upp löndin: Ísland, Grænland, Kanada, Færeyjar, Noregur, Danmörk, Skotland, Írland, Holland, Þýskaland, Færeyjar, fleiri Evrópulönd og Rússland. Stefnan er sett á allan heiminn og Óli telur það svo sannarlega vera raunhæft markmið.

„Já, við erum með notendur daglega í 30 til 40 löndum,“ segir hann. Skipstjórarnir sem nýta sér vefinn eru að veiðum á Atlantshafi allt frá Suðurskautinu til Norðurskautsins, í Kyrrahafinu við strendur Suður-Ameríku og umhverfis Afríku. „Flestir eru auðvitað í NorðurAtlantshafi.“

Í júní síðastliðnum efndu þeir feðgar til sjávarútvegsráðstefnu á netinu, Virtual FishExpo, sem er nýjung því líklega hefur þetta ekki verið gert áður. Heimsfaraldurinn varð til þess að þeir prófuðu að fara þessa leið, sem Óli segir hafa heppnast ákaflega vel.

„Við höfðum ætlað okkur að fara á allar sýningarnar um heim allan, en í staðinn gáfum við þjónustugeiranum okkar aðgang til að vera með kynningar sínar á vefnum. Við vorum með notendurna, framleiðendur eins og Hampiðjuna, Vónina og Egersund. Þetta voru tímamót því við vorum fyrstir í heiminum til að setja svona upp.“