Þann 6. september síðastliðinn sigldu kjaraviðræður sjómanna og útvegsmanna í strand hjá Ríkissáttasemjara.

Kjarasamningar sjómanna hafa verið lausir frá 1. desember 2019. Eða í 22 mánuði. Sem þykir nú ekki langur tími í ljósi reynslunnar. Síðast voru samningar lausir í rúm sex ár!

Slitnar upp úr

Þegar samningar strönduðu höfðu öll stéttarfélög sjómanna sammælst um tilboð til útgerðarmanna. Það samanstóð af m.a. hækkun kauptryggingar og kaupliða til jafns við hækkanir skv. Lífskjarasamningnum sem samið var um á almenna vinnumarkaðnum. Fiskverðsmál þ.e. aukið gagnsæi í fiskverði og Verðlagsstofa fengi rýmri heimildir til að sannreyna afurðaverðin. Einnig að teknir verði upp staðlaðir fiskverðsamningar á uppsjávarfiski sem byggðust á afurðaverði. Aukið mótframlag í lífeyrissjóð þ.e. 3,5% í tilgreinda séreign eins og allur almenni markaðurinn hefur fengið. Þegar almenni markaðurinn samdi um mótframlagið árið 2016 var tryggingagjald lækkað til að koma til móts við kostnað fyrirtækjanna vegna mótframlagsins. Útgerðarmenn fengu líka lækkun á tryggingargjaldinu á sama tíma og hafa greitt um 600 milljónum minna í tryggingagjald frá árinu 2016 en ella hefði verið. Svo má nota slagorð ASÍ - ÞAÐ ER NÓG TIL -  í þessum atvinnurekstri miðað við afkomu greinarinnar undanfarin misseri og ár.

Kostnaðarmat okkar á 3,5% mótframlaginu er um 1,500 milljónir króna á ársgrundvelli. Á móti þeim kostnaði koma áðurnefndar 600 milljónir, lækkun veiðigjalda vegna hærri rekstrarkostnaðar því laun og launatengd gjöld eru tekin inn í útreikning veiðigjalda. Má leiða líkum að kostnaður útgerðarinnar sé undir milljarði króna árlega við það að ganga að kröfu sjómanna um 3,5% hækkun lífeyrisgjalds.

Í síðustu Fiskifréttum kemur fram að 50 kvótahæstu útgerðir landsins fá 90,6% af úthlutuðu aflamarki á þessu fiskveiðiári. Segjum að kostnaður við 3,5% sé 800 milljónir hjá 50 stærstu, þá er kostnaður að meðaltali á hvert þessara fyrirtækja um 16 milljónir króna! Sum greiða minna og önnur meira allt eftir launakostnaði hvers og eins.

Næstu skref

Svo er reynt að selja okkur að mörg fyrirtæki í útgerð færu á höfuðið við að bæta þessum kostnaði á sig. Mitt mat er að útgerðin ætlar sér ekki að semja við sjómenn nema þeir greiði fyrir lífeyrissjóðinn sjálfir enda eru tilboð þeirra til okkar þannig. Innihalda m.a. að sjómenn taki meiri þátt í tryggingum, greiði hluta veiðigjalda og áfram verði nýsmíðaálag eftir 2031. Samningstíminn verði 12 ár og lífeyrissjóðurinn komi inn á 7 árum, 0,5% á ári. Einnig að frystiálag verði lækkað úr 7% í 5%. Auðvitað var þessu hafnað og sjómenn sjá engan tilgang í að sitja áfram á rökstólum upp á þessi býtti.

Verkefnið er enn til staðar og fer ekki frá okkur en það er undir sjómönnum komið hver næstu skref verða.

Kveðja Valmundur Valmundsson