Norska skipafélagið Eidesvik vinnur nú ásamt orkufélaginu Equinor, áður Statoil, að því að gera breytingar á Viking Energy þannig að hægt verði að knýja bátinn með ammóníaki. Hann verði þar með fyrsta kolefnishlutlausa þjónustuskip heims.

Viking Energy er þjónustubátur, gerður út af Eidesvik Offshore fyrir Equinor. Stefnt er að því að báturinn verði knúinn ammoníaki frá og með árinu 2024. Þá verði komnir um borð efnarafalar sem tryggja bátnum 2 MW orku.

Báturinn er 17 ára gamall og hefur hingað til verið knúinn náttúrugasi.

Verði allsráðandi

Margir búast við að í ekki svo fjarlægri framtíð geti ammóníak orðið allsráðandi eldsneyti í sjávarútvegi.

„Í faginu er talið að ammoníak verði stór partur af lausninni á því að draga úr umhverfisspori frá úthafssiglingum og öðrum siglingum,“ segir Vermund Hjelland tækniþróunarstjóri hjá Eidesvik Offshore.

Auk ammóníaks er einnig talið að vetni geti orðið mikilvægur orkugjafi skipa þegar fram líða stundir. Hjá Eidesvik telja menn þó að ammóníakið muni henta betur til lengri sigling an vetnið, og nefna þar þjónustusiglingar um Norðursjó þar sem skipin þurfa að sigla með mikið magn af eldsneyti.

Í nýrri skýrslu frá norska greiningarfyrirtækinu DNV um framtíð orkunotkunar í sjávarútvegi er því spáð að innan 4 til 8 ára verði orðið raunhæft að nýta bæði ammoníak og vetni til þess að knýja skip.

Huga þurfi samt sérstaklega að öryggisatriðum í sambandi við þessar tegundir eldsneytis.

Þar segir jafnframt að tilraunastarfsemi á borð við Viking Energy hraði þróun tækninnar sem þarf til að nýta ammóníak sem eldnseyti á skipum. Nú þegar sé verið að þróa á annan tug slíkra verkefna.

Þróunin í vetnisknúnum og metanólknúnum skipum sé komin lengra, en markmiðið sé í öllum tilvikum að losna við allan kolefnisútblástur.

Hættuleg tegund

Á Sjávarútvegsráðstefnunni í Reykjavík fyrir tveimur árum var meðal rætt um framtíðarorkugjafa í sjávarútvegi, eins og fjallað var um í Fiskifréttum þá. Þar kom fram að Alþjóðasiglingamálastofnunin hafi þá spáð því að byrjað verði að nota ammoníak sem eldsneyti á skip árið 2035, en það gæti þó orðið fyrr.

Stofnunin spáir því að díselolía muni til að byrja með smám saman víkja fyrir fljótandi náttúrugasi en síðar taki ammóníakið við að mestu.

„Það er alveg ljóst að menn geta verið ósammála og sagt þetta hættulega gastegund, mengandi, tærandi, ertandi, en málið er að við erum að fá ammóníakið inn sem eldsneyti,“ sagði Hafsteinn Helgason hjá verkfræðistofunni Eflu sem flutti erindi um málið á ráðstefnunni 2019.

Auk þess sé vel hægt að framleiða það í nægu magni hér á landi þannig að dugi á íslenska skipastólinn.