Íslenski uppsjávarflotinn er að stærstum hluta í síldarsmugunni en lítið hefur veiðst frá að undanförnu. Sigurður Ólafsson, skipstjóri á Heimaey VE, sagði hálfgert „reiðileysistímabil"  yfir þessu en alltof snemmt væri þó að örvænta. Yfirleitt hefur flotinn ekki verið farin í Smuguna fyrr en í ágúst og allt hafi verið heldur fyrr á ferðinni núna.

Sum­ar­vertíð hófst á Þórs­höfn í lok júlí þegar Heima­ey kom þar að landi 25. júlí með fyrsta mak­ríl­farm­inn. Þetta voru nálægt um eitt þúsund tonn sem veiddust austarlega á svæðinu en síðan hefur fremur lítið spurst af makríl. Farið var strax aftur í Smuguna þar sem Heimaey hefur verið að leita makríls ásamt stórum flota uppsjávarskipa núna í eina viku.

„Gangurinn í þessu er svo sem enginn. Skipin hérna eru að leita og fá lítið. Það er hálfgert reiðileysistímabil í gangi hérna núna. Það kom eitt skot hérna í fyrrinótt og síðan hafa skipin bara verið að leita og fengið mismunandi lítið og niður í ekki neitt,“ segir Sigurður.

Auk íslensku skipanna voru færeysk og rússnesk skip í Smugunni. Þau voru að dreifast vítt og breitt um svæðið í leit að makríl. Sigurður segir góða samvinnu milli skipanna við leitina en hver sem ástæðan sé þá er lítið af fiski á ferðinni.

Grænlandslykt af þessu

„Það er dálítil Grænlandslykt af þessu. Makríllinn hvarf úr Grænlandssjónum á tveimur árum og á tveimur árum hefur þetta minnkað niður í nánast ekkert í íslenskum sjó. Við skulum vona að það sama sé ekki að gerast hér í Smugunni. En við skulum þó hafa í huga að ágúst er nýhafinn. Í gegnum árin höfum við byrjað af einhverjum krafti í Smugunni einmitt um þetta leyti. Miðað við undanfarin ár ætti aðaltíminn að vera eftir og veiðin getur glæðst.“

Makríllinn sem hefur fengist í Smugunni hefur aðallega verið smár og fremur lélegur. Í byrjun júlí fékkst þó sæmilega stór fiskur en síðan hefur þetta allt farið niður á við bæði í magni og gæðum.

Heimaey VE hafði líka verið við makrílleit suður af landinu í júní og fyrstu daga júlí. Sú leit bar engan árangur. Undanfarin ár hafi oft verið veiði suður af Vestmannaeyjum í júlímánuði. Sigurður segir að þar hafi verið íslandssíld út um allt og mikil dreifing á henni.

„Síldarstofninn hefur greinilega braggast mikið. Síldin hefur verið mikið „fyrir okkur“ við makrílveiðar nokkuð mörg ár við suðurströndina.“

Þetta gæti aukið bjartsýni manna á góða síldarvertíð næsta haust og fyrrihluta vetrar. Samkvæmt Hafrannsóknastofnun hefur orðið viðsnúningur í þróun stofnstærðar íslensku sumargotssíldarinnar sem minnkaði ört frá árinu 2008 vegna slakrar nýliðunar og þrálatrar frumdýrasýningar í stofninum. Árgangur 2017 sem var stór kemur inn í viðmiðunarstofninn á þessu ári. Í ljósi þessi hækkaði kvótinn úr 35.490 tonnum fyrir yfirstandandi fiskveiðiár í 72.239 tonn fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 eða um 104%.