Umhverfissamtökin Environmental Justice Foundation (EJF) mun stýra átaki sem ráðist verður í til þess að hreinsa hafið í kringum Tæland af drauganetum. Netin verða endurunnin og notuð til framleiðslu á varningi eins og íþróttavörum og eldhúsbúnaði.

Átakið verður fjármagnað af umhverfissjóði Norsku smásölusamtakanna og gengur undir heitinu Net Free Seas, Netalaus höf. Kjarni átaksins verður að þjálfa strandsamfélög í Tælandi að safna saman ónýtum veiðarfærabúnaði, svokölluðum drauganetum, sem alls kyns sjávardýr flækjast í og sem verður þeim aldurtila. Sömuleiðis miðar verkefnið að því að leiðbeina fiskimönnum hvernig komast megi hjá því að tapa veiðarfærum meðan á veiðum stendur.

Allt í endurvinnslu

Öll þau net sem safnast verða hreinsuð með saltvatni, þjappað saman í bagga og flutt til næsta endursvinnsluaðila. Þar verða baggarnir tættir niður í litlar perlur sem verður dreift til notkunar hjá ýmsum framleiðslufyrirtækjum. EJF hefur þegar samið við tvö fyrirtæki um notkun á þessu endurunna hráefni, þ.e. tælenska hönnunarfyrirtækið Qualy og Starboard sem framleiðir búnað sem notaður er við vatnaíþróttir.

Tilraunaverkefni í þessa veru í fyrra í samstarfi við þrjú strandsamfélög skilaði á land einu tonni af drauganetum á einu ári. EJF bindur vonir við að strandsamfélögin verði nú alls tíu talsins og afraksturinn verði 5 tonn af drauganetum á einu ári.

„Net eru gerð úr plastefnum. Þau drepa fisk og aðrar sjávarlífverur áratugum saman áður en þau brotna niður í örplast. Það er því ákaflega mikilvægt að hreinsa hafið af drauganetum og öðrum veiðarfærabúnaði. Við bindum miklar vonir við átakið sem EJF stýrir,“ segir Rasmus Hansson, stjórnarformaður Umhverfissjóðs Norsku smásöluverslunarinnar.