Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en yfirtakan kemur til með að styrkja stöðu Iceland Seafood á spænska markaðinum. Ahumados Dominguez er meðal sjö þekktustu vörumerkjum á sínu sviði á spænska smásölumarkaðnum, samkvæmt tilkynningunni. Þá muni samruninn einnig veita ISI tækifæri til að nýta stöðu Ahumados Dominguez til að selja þorskafurðir.

Velta Ahumados Dominguez á síðasta ári nam 19,3 milljónum evra, eða um 2,9 milljörðum króna.

Pedro Mestanza verður áfram framkvæmdastjóri spænska fyrirtækisins og mun fara með 15% hlut á móti Iceland Seafood. Hann fær jafnframt kauprétt til næstu fimm ára að 5% hlut til viðbótar í Ahumados.

„Þetta er mjög mikilvægt skref í okkar stefnu að styrkja stöðu okkar á spænska smásölumarkaðnum og á sama tíma ryðja okkur til rúms á sístækkandi markaðnum fyrir lax á Spáni. Ahumados Dominguez er frábær viðbót við núverandi stöðu okkar á Írlandi. Samstæðan mun á ári hverju framleiða hágæða laxavörur úr 6.000 megatonn af hráefni, að mestu leyti fyrir smásölumarkað. Við höfum trú á að reynslumikla stjórnendateymi Ahumados Dominguez og sterkt vörumerki fyrirtækisins muni gefa okkur tækifæri að ná fram vexti til framtíðar,“ segir Bjarni Ármannson, forstjóri Iceland Seafood, í tilkynningunni.