„Niðurstaðan er mikil vonbrigði fyrir Ísland,“ segir í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti um ársfund Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins.

Á fundinum náðist ekki samkomulag um að stöðva veiðar á karfa á Reykjaneshrygg,en af hálfu Ísland var lögð áhersla á það.

„Veldur því helst andstaða Rússa sem ekki viðurkenna mat ICES á stöðu þessara karfastofna.“

Fyrir lá ráðgjöf frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) um að engar veiðar skyldu stundaðar sökum alvarlegs ástands stofnanna, en slík ráðgjöf hefur verið gefin út af ICES síðan 2016.

Í tilkynningunni segir ennfremur:

Ísland lagði fram tillögu um að engar veiðar verði heimilaðar árin 2020 og 2021. Evrópusambandið (ESB) og Danmörk (vegna Færeyja og Grænlands) lögðu fram tillögu um að heimila 5.500 tonna veiðar úr neðri karfastofninum á Reykjaneshrygg árið 2020. Báðum tillögunum var hafnað í atkvæðagreiðslu. Ísland greiddi atkvæði gegn þeirri tillögu sem gengur gegn ráðgjöf ICES. Í ljósi þessarar stöðu þurfa ríki sem ætla að heimila veiðar að setja sér einhliða kvóta fyrir árið 2020. Niðurstaðan er mikil vonbrigði fyrir Ísland og hvatti sendinefnd Íslands aðildarríki NEAFC til að setja ekki einhliða veiðiheimildir. Rússar voru andsnúnir báðum tillögunum varðandi karfa á Reykjaneshrygg og ljóst var að þeir myndu setja sér einhliða kvóta  langt umfram 5.500 tonn, óháð því hvaða stjórnun hefði verið samþykkt.

Ekki liggur fyrir samkomulag strandríkja varðandi veiðar úr deilistofnunum síld, kolmunna og makríl. Því var ekkert samþykkt á fundinum annað en að ríkin skyldu setja sér takmarkanir og öðrum en aðildarríkjum væri óheimilt að veiða á stjórnunarsvæði NEAFC. Auk þessa voru samþykktar stjórnunarráðstafanir fyrir úthafið varðandi langhala, ýsu á Rockall banka, ýmsa háfa og brjóskfiska og nokkra aðra fiskistofna.

Fyrir ári síðan náðist samkomulag um að taka upp nýtt rafrænt upplýsingakerfi þar sem upplýsingar frá veiðiskipum eru sendar beint úr rafrænum afladagbókum til fánaríkis og þaðan til NEAFC. Eftirlitsmenn aðildarríkja fá síðan aðgang að þeim gögnum auk þess sem þau verða aðgengileg vísindamönnum.  Vinna við útfærslu á ýmsum praktískum atriðum í þessu sambandi heldur áfram og vonir standa til að kerfið verði komið í fulla framkvæmd innan þriggja ára. Um er að ræða brautryðjendastarf þar sem NEAFC er fyrsta svæðisbundna fiskveiðistjórnunarstofnun heimsins sem þróar svona kerfi.

Ráðið fer með stjórn fiskveiða utan lögsagna einstakra ríkja á Norðaustur-Atlantshafi. Aðild að því eiga Danmörk (varðandi Færeyjar og Grænland), Evrópusambandið, Ísland, Noregur og Rússland.

Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu (ANR) fór fyrir íslensku sendinefndinni á fundinum. Í sendinefndinni voru, auk fulltrúa ANR, fulltrúar Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Fundurinn var sá 38. í röðinni og var haldinn í London 11.-14. nóvember.