Hugmyndir um kvótasetningu grásleppu hafa verið teknar út úr frumvarpi um veiðistjórn sem Svandís Svavarsdóttir, nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hyggst leggja fram á þingi í byrjun næstu viku.

Þetta kemur fram í endurskoðaðri þingmálaskrá stjórnarinnar, en frumvarpið er eitt af nokkrum stórum frumvörpum forvera Svandísar í embættinu, Kristjáns Þórs Júlíussonar, sem náðu ekki fram að ganga á síðasta þingi og verða nú endurflutt.

Frumvarp Kristjáns Þórs var um „veiðistjórn grásleppu, sandkola og hryggleysingja“ en nú er aðeins talað um „veiðistjórn sandkola og hryggleysingja“. Grásleppan er dottin út, en frumvarpið hefur ekki verið birt þannig að frekari upplýsingar um áformin er ekki að hafa í bili.

„Það er alla vega búið að gefa þau skilaboð með þessu að kvótasetning grásleppu sé ekki á dagskrá,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Einkum vegna umsagna

„Frumvarpið er mikið breytt þar sem úr því hafa verið felld ákvæði sem vörðuðu veiðistjórn grásleppu einkum vegna umsagna,“ segir í svari Atvinnuvegaráðuneytisins við fyrirspurn Fiskifrétta. Ráðuneytið svaraði þó ekki spurningu um það hvort „alveg hafi verið fallið frá öllum hugmyndum um að kvótasetja grásleppu, eða hvort verið sé að skoða það áfram?“

Nokkuð hart hefur verið tekist á um þessi mál innan Landssambands smábátaeigenda á síðustu misserum. Á aðalfundum hefur meirihlutinn verið andvígur kvótasetningu, en hins vegar hafa skoðanakannanir leitt í ljós að meðal þeirra félagsmanna sem stunda grásleppuveiðar hefur verið yfirgnæfandi meirihluti fyrir því að þeim verð stýrt með aflamarki.

Á aðalfundum LS árin 2019 og 2020 var öllum hugmyndum um kvótasetningu grásleppu hafnað, en í ályktunum aðalfundar ársins 2021 var ekki minnst á veiðistjórn grásleppu að öðru leyti en því að lagt var til að hún „taki mið af leyfilegum heildarafla.“ Tillaga um að grásleppan yrði kvótasett var hins vegar felld á fundinum.

Meðal þeirra sem eindregið hafa stutt kvótasetningu eru þeir Axel Helgason, fyrrverandi formaður LS, og Stefán Guðmundsson, grásleppusjómaður á Húsavík.