Jóhannes Pálsson, framkvæmdastjóri FF Skagen á Jótlandi, hefur staðið í ströngu að undanförnu og neyddist til að loka annarri af tveimur mjöl- og lýsisverksmiðjum fyrirtækisins nýlega. Ástæðan var hækkun hráefnisverðs vegna samdráttar í veiðum á uppsjávartegundum í Norðursjó og Eystrasalti, aukinni samkeppni frá nýjum verksmiðjum í Noregi og víðar og mikilli hækkun á orkuverði.

Jóhannes hefur verið framkvæmdastjóri FF Skagen frá árinu 2014. Fyrirtækið er ekki í útgerð og hefur keypt sitt hráefni af útgerðum í Norður-Evrópu en líka áður fyrr af íslenskum útgerðum.

Jóhannes kveðst sannfærður um að ákveðnir veikleikar séu í þeim aðferðum sem notaðar eru til að leggja mat á fiskistofna í hafinu. Allt miðist við aðferðarfræði út frá einni tegund og margir vilji meina að varfærnisregla í matinu sé orðin of fyrirferðamikil. Breytunum sem fari inn í módelin sem stofnarnir eru reiknaðir út frá fjölgi stöðugt. Stöðugt færri eigi auðvelt með útskýra þessa aðferðafræði. Vísindin hafi ekki leitt til minni óvissu heldur verði óvissuþátturinn sífellt stærri.

Veiðin helmingast

Fram að árinu 2005 voru frjálsar veiðar stundaðar í Norðursjónum en nú eru veiðarnar kvótasettar.

„Í Norðursjónum var veiðin á árum áður 1,5 milljón tonn af uppsjávarfiski, þ.e. sandsíli, bristlingi, síld, hestmakríl og makríl. Veiðarnar voru stundaðar af 500-700 skipum frá Danmörku, Hollandi, Svíþjóð og Noregi. Mikið af þessum fiski fór í bræðslu en manneldishlutinn jókst eftir því sem neysla á hestmakríl jókst. Þetta var líka gott hráefni til vinnslu á mjöli fyrir eldi af margvíslegu tagi. Fiskimjöl hefur verið notað til fóðurgerðar í svína- og kjúklingarækt og auðvitað fiskeldi og hlutur þess í gæludýrafóðri hefur vaxið mikið.”

Opinberar tölur liggja ekki fyrir um hvert hlutfall fiskimjöls og lýsis er í fiskeldisfóðri en Jóhannes áætlar að það sé á bilinu 10-15% af fiskimjöli í fóðrinu og 10-25% af lýsi.

Kvótinn á spærling á næsta ári í Norðursjónum er rúm 100.000 tonn. Á þessu ári er kvótinn rétt rúmlega 100.000 tonn af bristlingi og 100.000 tonn af sandsíli. Síldarkvótinn er 400-500.000 tonn. Heildarkvótinn hefur því farið úr því að vera 1,5 milljónir tonna niður í 7-800.000 tonn í Norðursjónum.

Fimm nýjar verksmiðjur

FF Skagen rak tvær fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur á Jótlandi. Nú hefur verksmiðjunni í Hanstholm verið lokað en verksmiðjan í Skagen verður áfram í rekstri. Við þetta misstu 35 manns vinnuna. Þar með eru einungis tvær verksmiðjur í rekstri í Danmörku, FF Skagen og TripleNine í Thyborøn. Verksmiðjan í Skagen afkastar 2.500-3.000 tonnum á sólarhring. Verksmiðjurnar voru nítján talsins í Danmörku þegar þær voru flestar en nú eru sem sagt tvær eftir í rekstri. Langstærsta fiskimjölsverksmiðjan í heiminum öllum var í Esbjerg á Jótlandi og afkastaði hún 6.500 tonnum á sólarhring. Henni var lokað árið 2006 af sömu ástæðu og verksmiðju FF Skagen í Hanstholm er lokað núna.  Til samanburðar má nefna að fiskmjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað afkastar nú að hámarki 1.400 tonnum á sólarhring en verið er að stækka hana þannig að afkastagetan fari upp í 2.380 tonn á sólarhring. Árið 2001 var 21 fiskimjölsverksmiðja á Íslandi og afkastageta þeirra var 16.000 tonn á sólarhring. Á síðasta ári voru starfandi 10 fiskimjölsverksmiðjur á Íslandi.

„Ástæðan fyrir því að við þurftum að loka verksmiðjunni í Hanstholm er sú að búið er að byggja tvær nýjar verksmiðjur í Noregi sem eru í samkeppni við okkur um hráefnið. Þá hafa þrjár nýjar verksmiðjur verið reistar í Eystrasaltinu, ein í Finnlandi, önnur í Eistlandi og sú þriðja í Póllandi. Allir eru að bítast um sama hráefnið og veiðin er um helmingi minni en hún var áður. Fyrir utan það sem veiðist í Norðursjónum eru veidd árlega um 300.000 tonn í Eystrasaltinu af uppsjávartegundum og við höfum keypt töluvert magn af þeim fiski. Svo hefur kolmunninn farið úr um 1,5 milljónum tonnum fyrir ekki svo löngu síðan niður í 750.000 tonn sem er kvótinn á þessu ári.”

Hagstætt mjölverð

Þróun orkuverðs í Evrópu hefur ekki heldur verið hagfellt þessum iðnaði og spáð er enn frekari verðhækkunum. Jóhannes bendir á að þrír hæstu kostnaðarliðirnir hjá FF Skagen hafi jafnan verið í þessari röð; hráefniskaup, launaliður og orkukostnaður. Nú hafi þetta snúist við og orkukostnaðurinn orðinn hærri en launakostnaður.

Samhliða minnkandi veiði og fleiri verksmiðjum sem bítast um hráefnið hefur afurðaverðið farið hratt upp. Meðan þessu öllu vindur fram er mjölverð í sögulegum hæðum.

Jóhannes segir það ekki einungis skýrast af framboði og eftirspurn á fiskimjölinu einu saman. Staðreyndin sé sú að heimsmarkaðsverð á próteini hefur hækkað mikið á þessu ári og á síðasta ári, hvort sem það er sojaproteín, hveitiprótein eða fiskmjöl. Gríðarleg eftirspurn er eftir fiskmjöli í Kína og það sem af er þessu ári hafa Kínverjar flutt inn 1,7 milljónir tonna en í eðlilegu ári nam innflutningurinn um 1,3 milljónum tonna.

„Það verður fróðlegt fyrir okkur í fiskimjölsbransanum hér á norðurslóðum, að fylgja eftir þróuninni á öðrum próteinum á næstu misserum, sérstaklega í ljósi væntinga um aukið framboð frá Íslandi og áhrifa af þróun flutningskostnaðar á verð og eftirspurn fiskimjöls á okkar heimamarkaði,” segir Jóhannes.