„Það leikur enginn vafi á því að salan á sjávarútvegsfyrirtækinu Sigurbirni ehf. í Grímsey er reiðarslag fyrir samfélagið,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar um þau tíðindi að Rammi ehf. í Fjallbyggð hefur keypt allt hlutafé fyrirtækisins. Það hefur gert út þrjá báta og rekur fiskvinnslu í Grímsey. Aflaheimildirnar, 1.040.796 tonn, hverfa frá Grímsey og um 9 manns sem hafa starfað hjá Sigurbirni standa uppi án atvinnu.

Ásthildur kvaðst ekki geta spáð því hvort um endalok fiskvinnslu væri að ræða í eyjunni. Markaðurinn myndi væntanlega stýra því.

„Við ætlum að hitta eyjaskeggja núna á næstu vikum. Við erum að skipuleggja að hitta íbúana og fara yfir þeirra sýn á framtíðina. Með í för verða forseti bæjarstjórar og fulltrúar bæjarstjórna sem eru innan Brothættra byggða. Það er nú seigt í Grímseyingum og þeir gefast seint upp. En við þurfum að vita hvað þeir sjá til framtíðar. Þarna hafa riðið yfir áföll eftir áföll,“ segir Ásthildur.

Ekkert skólahald verður í Grímsey í vetur. Foreldrar kusu að láta börnin sækja skóla upp á land. Skólinn hefur ekki verið formlega lagður niður en er í dvala.

„Ég held að það séu mjög mikil tækifæri í ferðaþjónustu í Grímsey. Það eru alltaf tækifæri líka í sjávarútvegi en þetta snýst um það hvernig hægt er að koma aflanum á markaði með sem hagkvæmustum hætti. Grímsey er sjávarbyggð og miklir sjómenn sem koma frá þessu samfélagi. En þegar horft er til annarra norðurslóðasamfélaga eins og í Kanada, Grænlandi og Noregi þá er ferðaþjónustan vaxandi þáttur í atvinnulífinu. Þar held að ég liggi fjölmörg tækifæri fyrir Grímseyinga,“ segir Ásthildur.