Mikil aðsókn hefur verið í smáskipanám, sem er atvinnuréttindanám á skip að 12 metra lengd, hjá Skipstjórnarskólanum sem er hluti af Tækniskólanum. Sjö námskeið fara fram á hverju ári og 26 manns taka þátt í hverju þeirra. Þannig eru útskrifaðir á milli 150 og 200 nemendur á hverju ári með smáskipapróf.

Kjartan Örn Kjartansson, kennari í skipstjórnargreinum, segir hafa orðið talsverða aukningu meðal kvenna sem sækja menntun í skipstjórn. Um er að velja fimm námsbrautir í Skipstjórnarskólanum. Sú stysta, sem tekur tvær annir veitir atvinnuréttindi til skipstjórnar á skipum sem eru styttri en 24 metrar en sú lengsta tekur 7 annir og gefur réttindi á skipum að ótakmarkaðri stærð. Sé einni önn bætt ofan á þetta námskeið fást ótakmörkuð alþjóðleg réttindi á öll skip.

Kippur í aðsókninni

„Það hafa verið 2-3 konur að meðaltali undanfarin ár en nú hefur orðið dálítill kippur í aðsókninni í smáskipanámskeiðunum. Þetta eru konur sem eru að sækja sér réttindi fyrir strandveiðibáta, hvalaskoðunarbáta eða rib-báta. Það er því mikill áhugi meðal kvenna og námskeiðin eru þéttsetin. Haldin eru þrjú námskeið á vorönn, þrjú á haustönn og eitt sumarnámskeið sem kennt er á helmingi lengri tíma. Yfirleitt reyni ég að hafa námskeiðin í sex vikur í samfellu og 26 manns eru á hverju námskeiði,“ segir Kjartan Örn.

Yfirgripsmikið nám

Námið á smáskipanámskeiðunum er bóklegt og verklegt. Kennslan fer fram í húsi Sjómannaskólans við Háteigsveg. Kennd er siglingafræði og skipstjórn, farið yfir stöðugleika og öryggismál, siglingareglur og sjórétt og sjávarföllin, kennt hvernig lesa á úr veðurkortum og hvernig nota á siglinga- og fjarskiptatæki, dýptarmæla og ratsjár, gps-tæki og siglingatölvur. Námið er því talsvert yfirgripsmikið og það veitir réttindi til að stjórna bátum upp að tólf metrum.

Pungaprófið ekki vara upp á punt

„Mig hefur alltaf langað í pungaprófið. Ég var aðeins of ung til að taka það þegar það miðaðist við 30 brúttólestir og hefur alltaf fundist fúlt að hafa ekki náð því. Ég er frá Raufarhöfn og alls ekki óalgengt að krakkar þaðan láti verða af því að fara í þetta nám,“ segir Karítas Ríkharðsdóttir.

Karítas er aðstoðarmaður þingflokks Framsóknarflokksins þannig að ekki er augljós beintenging milli starfs hennar og náms sem veitir henni atvinnuréttindi á minni bátum.

„Vonandi fer ég að róa en fyrst þarf ég að safna tímum og það er næsta skref. Ég ætla mér að nota réttindin, þau eru alls ekki bara upp á punt. Alls þarf ég að vera átta mánuði á sjó til þess að fullgilda réttindin. Fjölskylda mín rekur útgerð og ég hef farið á sjóinn af og til á ýmis veiðafæri og einnig unnið við það sem tengist útgerðinni eins og neta- og veiðafæravinnu “

Karítas segir námið mjög skemmtilegt og það kom henni á óvart hve stór hluti þess er bóklegur. Auk þess sé lært á öll þau tæki sem fylgja nútímalegum bátum. Karítas nefnir sérstaklega siglingaherminn í Stýrimannaskólanum sem sé bráðsnjallt kennslutæki.