Nýr Vilhelm Þorsteinsson EA 11 kom til heimahafnar á Akureyri um síðustu helgi og heldur í dag, föstudag, til kolmunnaveiða suður af Færeyjum. Nýsmíðin leysir af hólmi skip með sama nafni sem smíðað var fyrir Samherja fyrir 21 ári og var seldur til Rússlands í nóvember 2018.

Guðmundur Þ Jónsson skipstjóri segir nýja skipið marka mikil tímamót fyrir útgerð og áhöfn. Það var smíðað hjá Karstensens í Danmörku og kostaði nálægt 5,5 milljörðum króna.

Vilhelm Þorsteinsson EA er 89 metrar að lengd og 16,6 metrar á breidd og eitt fullkomnasta uppsjávarskip sem smíðað hefur verið fyrir íslenska útgerð. Það er búið tveimur aðalvélum og allur aðbúnaður og tæknibúnaður um borð eins og hann gerist bestur. Burðargetan er vel yfir þrjú þúsund og fimm hundruð tonn í þrettán lestartönkum þar sem aflinn verður kældur niður undir núll gráður til að sem best hráefni komi að landi.

„Illa grobbinn yfir þessu“

„Það er mikil upplifun að fá þetta nýja skip til afnota og maður er illa grobbinn yfir þessu,“ segir Guðmundur sem stýrði eldri Vilhelm Þorsteinssyni frá árinu 2001 að undanskildum tveimur árum þegar hann var með Baldvin Þorsteinsson EA.

„Heimsiglingin gekk eins og í sögu. Við prófuðum að keyra á báðum vélunum og annarri vélinni og fengum tækifæri til að prófa þetta allt saman. Við fengum ekkert veður á okkur, kannski um 15 metra mest á sekúndu, en það hreyfir ekki við skipinu, það líður bara áfram. Það býr yfir mikilli sjóhæfni og laust við allan titring. Þetta eru mikil tímamót og menn eru mjög glaðir hérna um borð,“ segir Guðmundur.

Í skipinu eru klefar fyrir fimmtán manns auk sjúkraklefa. Skipið er sérlega rúmgott og þar er líka að finna fallegan borðsal, tvær setustofur, líkamsræktaraðstöðu og gufubað fyrir skipverja.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sigldi með skipinu heim til Íslands frá Danmörku. Hann segir nýja Vilhelm Þorsteinsson vera af þriðju kynslóð uppsjávarskipa sem hann tekur þátt í að reka. Skipið hafi verið hannað af Karstensens en starfsfólk Samherja komið að ferlinu með sínar hugmyndir, meðal annars varðandi orkunýtingu.

Samherji hefur varið háum fjárhæðum til fjárfesta í nýjum skipum, búnaði og tækni á síðustu árum. Skipaflotinn hefur verið endurnýjaður að miklu leyti og á síðasta ári var hátæknivinnsluhúsið á Dalvík tekið í notkun. Auk þess hefur húsnæði og tæki bolfiskvinnslunnar á Akureyri verið endurnýjuð.

Eitt besta skipið

Guðmundur og hans menn voru í óða önn að undirbúa fyrsta túrinn og var haldið af stað í dag til kolmunnaveiða suður af Færeyjum. Á þeim slóðum er oft illviðrasamt og sjólag ekki alltaf með besta lagi á þessum árstíma. En hann segir skipið stórt og gott og fari vel með mannskapinn.

„Núna erum við að læra á skipið og allan búnaðinn. Við gerðum veiðarfæraprófun úti og hún gekk bara vel. En það tekur einhvern tíma að ná fullkomnum tökum á þessu. Við erum með tvö troll, eitt frá Atlantic og annað frá Hampiðjunni, 2.600 metra og 2.400 metra. Á siglingunni heim prófuðum við að lesta skipið með sjó og að snúa því á fullri ferð og hallinn var mjög lítill. Skipið kom einstaklega vel út úr þessari siglingu heim. Ég hef verið skipstjóri í þrjátíu ár og ég held að það sé óhætt að fullyrða að þetta er eitt besta skip sem ég hef stýrt á mínum ferli. Ég hef engar fregnir af kolmunnaveiðinni í færeysku lögsögunni enda er hún bara rétt að hefjast um þessar mundir. Maður vonar að skipið sé að koma á hárréttum tíma, því við misstum auðvitað af loðnuvertíðinni.“