„Ég kalla þetta bara öngulvindur, sem er bein þýðing úr norsku,“ segir Gísli Unnsteinsson um nýstárlegan búnað sem hann hefur útvegað sér frá Noregi.

„Þetta er til þess að draga inn slóðana þannig að menn þurfi ekki að vera að toga í þetta sjálfir með höndunum.“

Gísli gerir út á strandveiðar bátinn Steinunni ÁR 34 frá Þorlákshöfn og varð aflahæstur strandveiðimanna bæði í júní og júlí.

Hann segir að vel hafi gengið á strandveiðum í sumar. Þetta hafi verið mjög gott hingað til, en hann efast þó um að hægt verði að veiða mikil lengur en fram í miðjan ágúst.

„Ég hugsa að það vanti aðeins upp á. Það hefði þurft að vera meira í pottinum, mér sýnist þetta vera ábyggilega búið um miðjan ágúst. Er voðalega hræddur um það.“

Hann segist ekki vita til þess að menn hér á landi hafi verið að nota vindubúnaðinn norska, fyrir utan einn annan sem hann veit um.

„En í Noregi nota þetta flestir sem eru á handfærum.“

Léttir vinnuna

Sjálfur kynntist hann þessum vindum í Noregi en þar var hann skipstjóri á snjókrabbaskipi síðustu fimm árin.

Hann segist þó ekki viss um þessi búnaður hafi gert útslagið um að hann varð aflahæstur strandróðramanna.

„Þetta eykur lítillega afköstin, en kannski ekki mikið, og erfitt svo sem að mæla það. En það sem þetta gerir fyrst og fremst er að þetta léttir vinnuna svo mikið. Ég sjálfur hef til dæmis átt í axlavandræðum og veseni í handleggjum og svoleiðis, en það hvarf allt þegar ég byrjaði að nota þetta.“

Hann segist viss um að margir strandveiðimenn tækju þessu fagnandi.

„Þetta er örugglega gott fyrir marga, því það er nú hár meðalaldurinn í þessum strandveiðum. Þetta getur verið slítandi vinna þegar er mikil veiði. Það léttir mjög mikið að þurfa ekki að vera að toga fiskinn allan upp, því vindan dregur slóðana upp. Maður þarf bara að gogga fiskinn, hjálpa honum undir.“

Tvær vindur á bátnum

Gísli er með tvær vindur á bátnum sínum, og það dugar fyrir fjórar handfærarúllur.

Ég er með tvær vindur, tvær duga fyrir fjórar handfærarúllur,

„Hver svona vinda getur dregið slóða fyrir tvær rúllur, þannig að tvær er það sem strandveiðibátur þarf.“

Gísli hefur stundað strandveiðar allt frá upphafi.

„Það er samt fyrst núna sem ég hef verið í þessu á fullu. Þetta hefur yfirleitt verið hobbí hjá mér fram að þessu en svo fékk ég mér betri bát síðastliðið haust og er kominn alveg í þetta núna á fullt.“

Báturinn er skráður á Þorlákshöfn og þaðan gerir Gísli út en nú síðustu vikurnar hefur hann róið frá Hornafirði.

„Ég byrja í Þorlákshöfn, færi mig svo yfir í Vestmannaeyjar og síðan til Hornafjarðar þegar líður á sumarið. Það dregur svo úr veiðinni í Þorlákshöfn þegar kemur fram í júlí en þá aftur á móti er besti tíminn hérna.“