Venus NS, uppsjávarskip Brims hf., landaði úr sínum öðrum loðnutúr fyrir vestan land á Akranesi í gær. Eftirtekjan var um 1.900 tonn sem fengust í þremur köstum í Faxaflóanum. Bergur Einarsson skipstjóri segir að stefnan sé tekin út á Faxaflóa á ný strax að lokinni löndun.

Löndun stóð yfir úr Venusi á Akranesi í gær þegar rætt var við Berg. Löndunin tekur um einn og hálfan sólarhring. Hrognavinnsla úr þessum farmi hófst þó strax í gærmorgun. Það er því stutt á milli landana hjá Venusi því síðdegis á þriðjudag kom hann með rúm 500 tonn til Akraness sem fengust í Breiðafirðinum.

Þrjá tíma á miðin

„Það var talsvert að sjá af loðnu þarna. Við vorum reyndar bara í einni torfu og köstuðum á hana þrisvar sinnum. Þetta er mjög góð og hrognafull loðna og framhaldið á þessu er bara bjart.“

Um framhaldið segir Bergur allt snúast um hrognaþroskann og að ná sem mestum verðmætum út úr veiðunum.

„En þetta er fljótt tekið ef loðnan er hérna alveg við bæjardyrnar. Síðasti túr var ekki nema tólf eða þrettán klukkustundir alls. Það er auðvitað mjög gott að geta landað hérna á Akranesi og við erum bara þrjá tíma á miðin héðan. Við stefnum því beint út í Faxaflóa á ný þegar löndun lýkur.“

Fyrir örfáum dögum fréttist af góðum lóðningum út af Grindavík og Bergur telur líklegt að sú ganga sé nú komin norður fyrir Reykjanesið. Loðnukvóti Íslendinga er að þessu sinni tæp 70 þúsund tonn og Bergur telur öruggt að kvótinn náist.

Fíkill á þessar veiðar

„Það eru allir í hálfgerðri biðstöðu og vilja gera sem mest verðmæti úr veiðunum. En það er engin hætta á því að kvótinn náist ekki. Það hefur verið fínt veður á miðunum og við erum bara rólegir yfir þessu öllu. Það er gott að komast á loðnu aftur. Maður er eiginlega hálfgerður fíkill á þetta kvikyndi. Fyrir aðra er þetta eins og fara á laxveiðar nema við fáum borgað fyrir að veiða loðnuna en hinir þurfa að borga fyrir að fá að veiða laxinn.“

Gott verð hefur fengist fyrir frysta loðnu á þessari vertíð og þótt verð fyrir loðnuhrognaafurðir liggi ekki fyrir er ljóst að það verður hátt. Sumir bundu óskir við að bætt yrði í loðnukvótann nú vegna en Bergur lætur það allt liggja milli hluta. En Bergur er enginn nýgræðingur þegar kemur að loðnuveiðum. „Ég læt það duga að segja að ég hafi oft séð minni göngur á stærri vertíðum. En þetta getur verið svo dagaskipt. Það getur verið mikið að sjá einn daginn og svo ekkert daginn eftir.“

Bergur telur að gangan stóra sem Polar Amoroq fann í Jökuldýpinu í byrjun síðustu viku hafi gengið inn í Breiðafjörðinn. Það hafi verið úr þeirri göngu sem Venus veiddi um 500 tonn úr í næstsíðasta túr. Síðan fannst ekki meira úr þessari torfu sem líklega var gengin upp að ströndum til hrygningar.

Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu um miðjan dag í gær (miðvikudag) hefur rúmlega 25.000 tonnum af loðnu verið landað það sem af er vertíðinni af þeim tæplega 70.000 tonnum sem íslenskum útgerðum er heimilt að veiða.