Í Noregi velta menn því nú fyrir sér hvort þúsundir erlendra farandverkamanna geti komið til landsins til þess að taka þátt í fiskvinnslu þegar þorskvertíðin hefst við Lófót og Vesturálseyjar í upphafi næsta árs.

Árum saman hafa allt að 4.000 erlendir verkamenn komið til Noregs í þessu skyni um miðjan febrúar eða svo, en óvissa ríkir nú vegna heimsfaraldurs Covic-19.

Geir Ove Ystmark, framkvæmdastjóri Sjávarafurðaráðs Noregs (Sjømat Norge), hefur þess vegna óskað eftir því við stjórnvöld að verkafólkinu verði útvegað ódýrt húsnæði til að dveljast í sóttkví fyrstu dagana eftir komuna til Noregs.

Norska Fiskeribladet skýrir frá þessu.

Þar er einnig rætt við Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs, sem segist gera sér vonir um að fleiri Norðmenn taki nú þátt í fiskvinnslunni en venjulega, enda sé töluvert atvinnuleysi í Noregi vegna veirunnar.

Síðla vetrar og fram á vor stunda Norðmenn umfangsmiklar þorskveiðar við Lófót og Vesturálseyjar. Þar eru hrygningarstöðvar Barentshafsþorsksins sem er ein verðmætasta afurð norskra fiskveiða.

Þorskurinn kemur á þessar slóðir yfirleitt í janúar eða febrúar og hefst þar við fram eftir vori, en snýr þá aftur til Barentshafsins þar sem ætið er.

Norðmenn nefna þorskinn úr Barentshafi ‚skrei‘ þegar hann kemur í sína árlegu hrygningargöngu, og mun orðið vera skylt íslenska orðinu skreið sem hefur einnig verið notað um fisktorfur og göngufisk auk herts fisks.