Norsk stjórnvöld hyggjast skera upp herör gegn ólöglegum veiðum og sölu á fiski. Ástand þessara mála þar í landi en með allt öðrum hætti en menn eiga að venjast á Íslandi.

Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs, segir að innan tíðar verði tekið upp eftirlit með öllum ferðum fiskiskipa við Noreg sem verður gert skylt að tilkynna allan afla. Lndanir verði skráðar með sjálfvirku vigtarkerfi. Sjávarútvegsráðherra segir þetta lið í því að draga úr ólöglegum veiðum.

„Við þurfum að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu í grundvallaratriðum. Það þarf skilvirkari og snjallari auðlindastýringu með nýrri tækni og stafrænum lausnum sem beinast gegn þeim sem hafa óhreint mjöl í pokanum,“ segir Ingebrigtsen.

Monica Mæland dómsmálaráðherra segir ólögleg sala á fiski sé lögbrot sem verði að taka á og refsa fyrir.

„Lögreglan er að setja upp lausnir sem auðvelda almenningi að skýra frá lögbrotum á þessu sviði sem ég vænti að margir muni notfæra sér,“ segir Mæland.

Eftirlit með 0,5% landana

Á heimasíðu norsku ríkisstjórnarinnar segir að ólögleg viðskipti með fisk séu ábatasöm en valdi greininni miklum skaða. Niðurstöður greininga á vegum hins opinbera sýna að þeir sem stundi ólöglegar veiðar á sameiginlegri auðlind landsins mæti lítilli fyrirstöðu.

Aðgerðir hins opinbera felast meðal annars  í stafrænu eftirliti og skráningu, skilvirkara fiskveiðaeftirliti, eflingu löggæslu og harðari viðurlögum við lögbrotum. Fyrsta skref í vegferð norskra stjórnvalda er að skylda öll fiskiskip, óháð stærð, að vera með búnað sem gerir stjórnvöldum kleift að fylgjast með ferðum þeirra með stafrænum hætti.

Árlega eru landanir í Noregi um 240.000 talsins. Umfang eftirlits norsku fiskistofunnar hefur einungis náð til hálfs prósents allra landana. Norska fiskistofan hefur haft eftirlit með einungis hálfu prósenti allra landana. Ingebrigtsen segir að eftirlit við hafnir og móttökustöðvar fisks sé mikilvægt en ekki sé mögulegt að stýra þessum málum með opinberum starfsmönnum sem fylgist með í hvert sinn sem skip kemur inn til löndunar. Nota verði nútímatækni til að fylgjast með og skrá að allt fari fram eftir settum reglum.