Fiskverð og sérstaklega verð á þorski hefur hækkað mikið í sumar. Þegar farið er tvö ár aftur í tímann var kílóverð á óslægðum þorski í ágústbyrjun 2017 um 219 kr., 281 kr. á sama tíma 2018 en fór hæst í 437  kr. í byrjun vikunnar. Aron Baldursson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Íslands, segir skýringuna helst aukna eftirspurn að utan.

„Eftirspurn eftir íslenskum fiski er orðin meiri en aðrir þættir geta einnig spilað inn í þessar verðhækkanir. Neysluhegðun fólks, veiði í Noregi og Rússlandi en skýrasta svarið við þessu er aukin eftirspurn eftir íslenskum fiski erlendis frá,“ segir Aron.

Stöðugt gengi íslensku krónunnar ýti síðan enn frekar undir stöðugt verð.

„Kaupendahópurinn er lítið að breytast, auðvitað eru einhverjar breytingar með tíð og tíma en í grunninn er þar svipuð blanda erlendra og innlendra kaupenda.“

Aron segir að talsverð aukning hafi orðið í útflutningi á óunnum fiski í gámum og margir velti fyrir sér hvað valdi því. Ein ástæðan geti verið sú að hagkvæmara sé orðið að vinna fiskinn utan Íslands þrátt fyrir flutningskostnað og hugsanlega gæðarýrnun.

Jafnvel enn frekari hækkanir

„Samfélagið allt ætti að fagna því að fiskverð er að hækka. Kaupendur sem kaupa á háu verði eru að selja á háu verði. Allt skilar þetta sér í virðisauka fyrir þjóðarbúið.“

Meðalverð á óslægðum þorski síðastliðinn mánudag var 437 kr. kílóið. Það er með allra hæsta verði í mjög langan tíma. Aron segir margt benda til þess að svo hátt fiskverð haldist og  engar augljósar vísbendingar um að verð á íslenskum fiski lækki.

„Þarna erum við að sjá allt annað verð en við höfum átt að venjast undanfarin ár. Segja má að skortstaða á fiskmörkuðum þennan dag hafi leitt af sér þetta verð. Þegar framboð er lítið hækkar verðið. Alveg frá því 10. júlí hefur fiskverð hækkað talsvert og ástæðan er sú að það dregur úr veiðum á þessum tíma. Þar spila inn í sumarfrí og stöðvun veiða. Ég met það svo að það virðist enn vera forsenda fyrir hækkandi fiskverði og ég heyri ekki annað að það verði aukin eftirspurn eftir fiski í heiminum.