Svandís Svarsdóttir verður matvæla-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Í stjórnarsáttmála, sem kynntur var áðan, er stuttur kafli um sjávarútvegsmál. Þar segir að skipuð verði „nefnd til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins.“

Nefndin á meðal annars að koma með tillögur til að ná „samfélgslegri sátt um umgjörð greinarinnar.“ Hún á einnig að finna leiðir til að „auka gegnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins.“

Þá á nefndin að meta hver árangur er af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum „til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum.“

Allur sjávarútvegskaflinn er svohljóðandi:

» Skipuð verður nefnd til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Nefndinni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar. Nefndin fjalli einnig um hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins. Þá meti nefndin árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum.

» Fylgt verður eftir tillögum starfshóps um græn skref í sjávarútvegi til að flýta eins og kostur er orkuskiptum í sjávarútvegi og ná markmiðum um samdrátt í losun.

» Mótuð verður heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Við þá vinnu verður lögð áhersla á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að greinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villtra laxastofna.

» Áfram verður stutt við öflugt styrkjakerfi, samstarf við háskólasamfélagið og stuðningsumhverfi rannsókna og þróunar til að stuðla að nýsköpun í sjávarútvegi og tengdum greinum