Eftirlit Fiskistofu með auðlindinni og veiðum úr henni hefur verið gagnrýnt töluvert á síðustu árum. Ríkisendurskoðun tók árið 2019 saman skýrslu þar sem gerðar eru ýmsar athugasemdir við eftirlitið og í framhaldinu gerði samstarfshópur ráðuneytisins tillögur um úrbætur.

Í Samráðsgátt stjórnvalda er nú frumvarp frá atvinnuvegaráðuneytinu sem ætlað er að bæta úr þessum vanköntum. Meðal annars er lagt til að viðurlagakaflar laga verði samræmdir og Fiskistofu veittar heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir, sem meðal annars gera stofnuninni kleift að taka tillit til alvarleika brots og þeirra hagsmuna sem í húfi eru.

Í frumvarpsdrögunum er einnig gert ráð fyrir því að eftirlitsmenn Fiskistofu fái skýra lagaheimild til að nota dróna og annan fjarstýrðan og sjálfvirkan búnað sem getur safnað upplýsingum. Einnig verður Fiskistofu veitt heimild til að vinna með persónuupplýsingar, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og persónuupplýsingar.

Fjölskyldutengsl

Þá er í drögunum reynt að afmarka betur hugtakið raunveruleg yfirráð í sjávarútvegsfyrirtækjum.

Samkvæmt núgildandi lögum um stjórn fiskveiða mega einstök fyrirtæki ekki ráða yfir meira en 12 prósent af heildarfiskveiðikvótanum, og þessi regla nær einnig til tengdra aðila. Óljós ákvæði um tengsl milli aðila hafa hins vegar torveldað Fiskistofu að hafa eftirlit með þessu, en nú er meiningin að bæta þar úr.

„Raunveruleg yfirráð geta talist vera fyrir hendi jafnvel þó svo viðkomandi fari hvorki með meirihluta hlutafjár eða stofnfjár né heldur meirihluta atkvæðisréttar í eiginlegum skilningi,“ segir í greinargerð með frumvarpsdrögunum.

Til þess að skerpa á þessu er í drögunum áformað að bæta nýjum málsgreinum við 13. grein laganna um stjórn fiskveiða, meðal annars með því að ítreka að raunveruleg yfirráð geti skapast með fjölskyldutengslum og stjórnunartengslum ýmis konar ekki síður en eignarhaldi og samningum.

Víð afmörkun

„Horft var til þess að tryggja nægilega víða afmörkun á slíkum tengslum sem gæti vegið inn í heildstætt mat á því hvort raunverulegum áhrifum sé til að dreifa,“ segir í greinargerðinni.

Jafnframt er í drögunum ítrekað að raunveruleg yfirráð geti aðilar öðlast ef þeir hafa möguleika til að beita réttindum innan fyrirtækis, hvort sem þeir hafi þann rétt eða eigi tilkall til hans samkvæmt samningum eða ekki.

Það er Fiskistofa sem fær það hlutverk að skera úr um það hvort raunveruleg yfirráð eru fyrir hendi og aðilar þar með tengdir. Hún fær einnig heimild til að krefjast hvers konar upplýsinga og gagna frá eigendum eða útgerðum, og einnig frá ríkisskattstjóra, fyrirtækjaskrá og Þjóðskrá Íslands.

Þá verður Fiskistofu gert skylt að birta upplýsingar um „eignarhald 30 stærstu handhafa aflahlutdeildarhafa og 30 stærstu handhafa krókaflahlutdeildarhafa á heimasíðu sinni.“

Fréttin birtist upphaflega í Fiskifréttum 4. mars.