Starfshópur sem vinnur að endurskoðun á meðferð og ráðstöfun aflaheimilda sem ríkið hefur forræði yfir hefur hafið kynningu á viðfangsefninu.

Um málið er fjallað á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði hópinn með erindisbréfi þann 30. apríl síðastliðinn. Hann skipa þau

Þóroddur Bjarnason, prófessor (formaður)

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, alþingismaður

Bergþóra Benediktsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra

Gunnar Atli Gunnarsson, aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Þorsteinn Víglundsson, alþingismaður

Hópurinn hittist með hagsmunaaðilum í Reykjavík um miðjan ágúst og fyrirhugaðir eru fundir á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi.

Veiðiheimildir sem hópurinn fjallar um ganga gjarnan undir nafninu 5,3% potturinn. Árlega er sú prósenta tekin af heildarafla hverrar fisktegundar áður en aflamarki er úthlutað á grundvelli aflahlutdeildar. Á skiptimarkaði Fiskistofu er tegundunum skipt í þorsk, ýsu, ufsa, steinbít, löngu, keilu og gullkarfa. Þeim tegundum er síðan ráðstafað til strandveiða, línuívilnunar, almennan og sértækan byggðakvóta, rækju- og skelbóta og frístundaveiða.

Í umfjöllun LS segir að um stórmál sé á ferðinni og mikilvægt að LS komi sínum sjónarmiðum vel á framfæri, enda starfshópnum ætlað að leggja til breytingar, telji hann þess þörf. Við mat á slíku beri hópnum að líta til þess hvort markmið, sem að var stefnt varðandi nýtingu aflaheimildanna, hafi náðst. Forskriftin er gefin í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur:

„Vega þarf og meta fyrirkomulag þeirra aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir, þ.m.t. strandveiða, með það að markmiði að tryggja byggðafestu og nýliðun. Jafnframt skal starfshópurinn leitast við að tryggja að mögulegar breytingar hámarki virði þeirra verðmæta sem felast í umræddum aflaheimildum“, eins og segir í erindisbréf ráðherra.

Áherslur LS

LS mun í málflutningi sínum leggja áherslu á að tryggja sem mestar veiðiheimildir til dagróðrabáta gegnum línuívilnun og byggðakvóta, segir í frétt sambandsins. Línuívilnun verði hækkuð í 30% og verði fyrir alla dagróðrabáta. Úthlutun byggðakvóta verði að mestu í ívilnun á landaðan afla þar sem dagróðrabátar verði í forgangi.

„Nauðsynlegt er að auka við heimildir til strandveiða og mynda þannig svigrúm til aukins veiðiréttar. Varðandi rækju- og skelbætur er það skoðun félagsins að þær eigi eingöngu að vera fyrir báta og útgerðir sem urðu fyrir skerðingu vegna aflabrests í rækju og hörpudiski,“ segir þar einnig.