Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, vonast til þess að smíði nýs hafrannsóknaskips geti hafist snemma á næsta ári, en gert sé ráð fyrir tveggja ára smíðatíma.

„Vel hefur verið unnið að undirbúningi smíðinnar með þarfagreiningu og frumhönnun. Farið hefur verið í verðkannanir og nú er unnið að gerð útboðs með ríkiskaupum,“ sagði hann á ársfundi stofnunarinnar, sem haldinn var í splunkunýju húsi föstudaginn 13. nóvember síðastliðinn: „Engin hjátrú á þessum bæ,“ sagði hann, en þetta er í annað sinn sem ársfundur Hafrannsóknastofnunar er haldinn.

Fundurinn var að þessu sinni sendur út á Youtube-rás stofnunarinnar, enda allt samkomuhald takmarkað mjög vegna Covid-19.

Reksturinn í jafnvægi

Sigurður minntist einnig á rekstrarerfiðleika stofnunarinnar, sem hann segir að nú eigi að vera að baki.

„Það hafði mikil áhrif á rekstur okkar að fjármögnun á grunnstarfi hafrannsóknarstofnunar byggði ekki á nægilega traustum grunni. Það var of treyst á sjóði eins og verkefnasjóð sjávarútvegsins með breytilegu tekjustreymi. Við þurftum því að hagræða í rekstri á síðasta ári. Þær aðgerðir voru erfiðar þar sem við fækkuðum störfum í stoðþjónustu og yfirstjórn.“

Góðu fréttirnar séu þær að „rekstur þessa árs er í jafnvægi. Velta okkar í ár er um 4,2 milljarðar og sértekjur 1,2 milljarðar.“