„Það er hægara sagt en gert að fá áreiðanleg gildi úr þessum beinum og það er engin leið að vita það fyrirfram. Þetta eru mörg hundruð sýni sem hafa farið í gegnum allt ferlið,“ segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir líffræðingur um rannsóknir sínar og Ragnars Edvardssonar fornleifafræðings á gömlum fiskbeinum.

Ragnar  er fornleifafræðingur og hefur meðal annars rannsakað gamlar verstöðvar á Vestfjörðum þar sem fundist hafa heilu haugarnir af þorskhausum og öðrum fiskbeinum, misgömlum. Þessi bein búa yfir forvitnilegum heimildum um afdrif og örlög þorsksins undanfarnar aldir, en Fiskifréttir hafa áður fjallað nokkuð um rannsóknir þeirra hjóna. Þau búa í Bolungarvík og stýra þar Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

Þau birtu nýlega nýjustu niðurstöður rannsókna sinna í vísindatímaritinu Scientific Reports, og greint var frá þeim á vef Háskóla Íslands. Þar er athyglinni beint að efnasamsetningu beinanna, einkum því sem kallað eru stöðugar samsætur kolefnis og niturs. Úr þeim má meðal annars lesa upplýsingar um veiðiálag fyrri tíma og hvernig stofninn hefur brugðist við því.

Vistkerfi sjávar

„Gildi efnasamsætanna geta sagt okkur mikið um vistkerfi sjávar,“ er haft eftir Guðbjörgu Ástu á vef Háskóla Íslands þar sem sagt er frá þessum nýjustu niðurstöðum í rannsóknum hennar. „Þannig getum við notað gildi niturs til að meta stöðu einstaklingsins í fæðukeðjunni, hærri gildi þýða t.d. að fiskurinn át aðra fiska frekar en hryggleysingja. Gildi kolefnis endurspegla frekar umhverfi fisksins, sjávarhita en líka fæðu, t.d. hvort fiskurinn át í strandsjó eða á hafi úti.“

Úr beinunum má þannig lesa upplýsingar um ástand þorskstofnsins hverju sinni. Meðal annars er hægt að greina hvernig bæði aukið veiðiálag á seinni tímum og langvarandi kuldaskeið fyrri alda hafa haft áhrif á afdrif og afkomu þorsksins hér við land.

Rannsóknirnar sýna að gildi niturs í þorski hafa lítið breyst yfir aldirnar en gildi kolefnis eru aftur á móti mun breytilegri.

Stöðug gildi niturs bendi síðan til þess að fæðuvist þorsksins hafi lítið breyst öldum saman. Hins vegar séu gildi kolefnis bæði lægri og dreifðari á kaldari tímabilum, sem að sögn Guðbjargar Ástu bendir til þess að aflinn hafi komið víðar að. Úr því má einnig lesa að í fæðugöngum hafi þorskurinn getað brugðist við kuldanum í hafinu og haldið þannig stöðu sinni í fæðukeðjunni.

Samkeppni tegundanna

Eins og við mátti búast fundust við verbúðirnar ekki bara þorskbein, heldur var þar einnig að finna bein úr ýsu og steinbít. Guðbjörg Ásta segir að samanburður á þorski, ýsu og steinbít leiði áhugaverð mynstur í ljós:

„Við lok 19. aldar lækka gildi niturs hjá bæði þorski og ýsu en þau hækka frekar hjá steinbít. Þetta er í samræmi við það sem er vænst við þá umfangsmiklu aukningu á veiðiálagi sem verður með aukinni togaraútgerð á þessum tíma. Bæði er líklegt að meðalstærð fiska í veiðistofnum minnki, sem getur endurspeglast í stöðu í fæðukeðjunni, en þá er líka líklegt að fiskveiðar fjarlægi eitthvað af ákjósanlegustu fæðu þorsk úr vistkerfinu með sömu afleiðingum. Tegundir sem reiddu sig lítið á fiskiát gætu þvert á móti haft hag af minnkaðri samkeppni við stóra afræningja og staða þeirra í keðjunni hækkað. Þetta skýrir mögulega það mynstur sem við sjáum hjá steinbít,“ segir Guðbjörg Ásta á vef Háskólans.

Erfðagreiningin eftir

Hvað varðar þær niðurstöður sem þegar hafa verið birtar segir Guðbjörg Ásta, í stuttu spjalli við Fiskifréttir, að þau hafi í sjálfu sér lokið við úrvinnsluna, en gera þó áfram ráð fyrir þátttöku í samstarfsverkefnum.

„Þetta eru verðmæt gögn og við munum auðvitað leggja þau til, bæði efniviðinn og líka gögnin sem við erum með.“

Nú þegar sé í bígerð samstarf um greiningu á stærri gagnasettum, bæði frá öðrum stöðum á Íslandi en mögulega einnig frá Norðurlöndunum.

„Enn er þó eftir að birta erfðafræðigreiningar. Það gæti tekið einhver ár í viðbót að fullgreina þau gögn. Þar er auðvitað rennt blint í sjóinn, en við erum komin með gögn þar sem verið er að skoða erfðabreytileika í þessum gömlu þorskbeinum fyrir mörg þúsund erfðamörk.“