Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gær að lokinni rúmlega þriggja vikna veiðiferð. Afli skipsins var 570 tonn upp úr sjó að verðmæti um 180 milljónir króna.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og frétta af túrnum.

„Við veiddum víða. Við vorum hér fyrir austan land, úti fyrir Norðurlandi, vestur í Víkurál og reyndar einnig á Skerjadýpinu. Mest vorum við fyrir vestan. Aflinn er blandaður en þó mest af karfa. Segja má að túrinn hafi gengið vel og veðurfarið hefur verið einstakt. Það sem einkenndi túrinn var sannkölluð sumarblíða. Ufsaleysi skyggði þó á. Við leituðum sífellt að ufsa án árangurs. Það virðist bara enginn ufsi vera á ferðinni nú um stundir,“ segir Bjarni Ólafur.

Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða næstkomandi fimmtudag og verður þá stefnan sett á Barentshafið. Gert er ráð fyrir að skipið veiði þar 600-700 tonn. Skipstjóri í Barentshafstúrnum verður Theodór Haraldsson.