Síldarvinnslan í Neskaupstað gerir upp makrílvertíðina á heimasíðu sinni. Þar kemur meðal anars fram að heildarkvóti á vertíðinni hafi verið 148.400 tonn og 18.900 tonn séu óveidd. Makrílvertíðin hafi verið vel heppnuð þrátt fyrir breyttar göngur makríls.

"Makríllinn breytti göngum sínum í ár ef miðað er við síðustu ár. Hann gekk í afar takmörkuðum mæli upp á landgrunnið og vestur eftir allt til Grænlands eins og hann hefur gert undanfarin ár. Að þessu sinni hélt hann sig í mestum mæli lengst austur af landinu og reyndar mest á alþjóðlegu hafsvæði sem flestir þekkja undir nafninu Síldarsmugan. Það þurfti því að sækja aflann mun lengra en þurft hefur á undanförnum árum.

Alls lögðu um 20 íslensk skip stund á makrílveiðarnar í ár en vegna hins breytta göngumynsturs stunduðu smábátar nær engar veiðar.

Verðmæti upp á 3 milljarða

Til að bregðast við því hve langt var að sækja makrílinn var myndað einskonar veiðifélag þeirra fjögurra skipa sem lönduðu til vinnslu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Skipin voru Beitir NK, Börkur NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA. Afla skipanna var hverju sinni dælt um borð í eitt þeirra sem síðan flutti hann að landi til vinnslu. Skiptust skipin á að taka aflann um borð. Með þessu fyrirkomulagi urðu minni frátafir frá veiðum og aflinn barst ferskari til vinnslu. Samtals lönduðu þessi skip 41 sinni á makrílvertíðinni og þar af voru 39 landanir hluti af veiðisamstarfinu. Skipin fjögur lönduðu 38.500 tonnum af makríl á vertíðinni og var verðmæti aflans tæplega 2.764 milljónir króna. Á sama tíma lönduðu skipin 4.600 tonnum af síld, sem fékkst sem meðafli, að verðmæti 205 milljónir króna. Þannig voru heildarverðmæti makríl- og síldarafla hjá þessum fjórum skipum í júlí og fram til 10. september 2.980 milljónir króna.

Þegar leið á vertíðina varð ljóst að skipin þyrftu í einhverjum mæli að landa erlendis svo unnt yrði að ná kvótanum. Samtals voru landanir erlendis níu talsins og var rúmlega 10.000 tonnum af makríl landað í Færeyjum og Noregi.

Mikilum meirihluta makrílafla skipanna var landað í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað eða rúmlega 28.000 tonnum. Í fiskiðjuverinu er unnið á þremur vöktum og eru um 25 starfsmenn á hverri vakt auk verkstjóra, vélstjóra og iðnaðarmanna. Gengnar eru 12 tíma vaktir og í fullum vaktamánuði þegar hráefnisöflun er stöðug vinnur hver starfsmaður á um 20 vöktum. Hér er um að ræða mikla vinnu sem gefur góðar tekjur. Vinnsla makrílsins gekk vel alla vertíðina og á síðustu dögum hafa verið tíðar útskipanir á frystum makríl í Norðfjarðarhöfn.

Makrílafli skipanna sem lögðu upp hjá Síldarvinnslunni var sem hér segir (miðað er við landaðan afla hvers skips, en hafa ber í huga veiðisamstarfið):  Börkur NK 11.203 tonn,  Beitir NK 10.293 tonn, Bjarni Ólafsson AK 7.724 tonn, Margrét EA  9.233 tonn.  Þess skal getið að Börkur var það íslenska skip sem landaði mestum afla á vertíðinni og Beitir landaði fimmta mestum afla.