Hátt verð á fiskmörkuðum koma við kaunin á fiskvinnslunni og eru sum fyrirtækjanna kominn að þolmörkum hvað það varðar. Mikill útflutningur á óunnum fiski til lengri tíma og óhagstætt veðurfar til skemmri tíma hafa þrýst fiskverði í hæstu hæðir. Þannig fór verð á slægðum þorski hæst í rúmar 624 kr/kg en meðalverð síðustu þriggja mánaða er 440 kr/kg.

Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og -útflytjenda, segir þetta háa verð vera að drepa alla. Það hrikti í stoðum þeirra fyrirtækja sem eftir eru á þessum vettvangi. Ef svo heldur fram sem horfir fækki þeim enn frekar og grunnurinn undir íslensku fiskmarkaðina veikist.

„Þess er ekki langt að bíða að Ísland verði einungis hráefnisuppspretta og opinberir aðilar virðast ekki hafa áhuga á því að koma í veg fyrir það. Á síðasta ári voru flutt úr landi yfir 50 þúsund tonn af óunnum fiski. Við erum að flytja virðisauka úr landi sem enginn virðist velta sérstaklega fyrir sér að gæti orðið þjóðinni til hagsbóta,“ segir Arnar.

Fiskifréttir sögðu frá því í október á síðasta ári að greinin verði af 2-4 milljörðum króna ári vegna gámaútflutningsins og að fari 50 þúsund tonn óunninn í landi tapist 500 störf í fiskvinnslu. Málið var tekið upp í atvinnuveganefnd Alþingis en áður hafði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra lýst því yfir að ekki væri að vænta aðgerða á vegum ráðuneytisins.

Kvaðir á „sérleyfishafana"

Nokkrir tugir fyrirtækja starfrækja fiskvinnslu án útgerðar. Mörg þeirra eru í sérhæfðri vinnslu og önnur starfa á innanlandsmarkaði en stórum, ótengdum fiskvinnslufyrirtækjum hefur fækkað til muna á undanförnum árum miðað við það sem var þegar gámaútflutningur var takmarkaður með álögum. Skemmst er að minnast Toppfisks og Frostfisks sem voru einna stærstir kaupenda á fiskmörkuðunum en bæði fyrirtækin hafa hætt starfsemi.

Arnar segir að tvöföld verðmyndun á fiski dragi mjög úr framboði á fiskmörkuðum. Það að launakostnaður vegna sjómanna sé mun hærri sé landað á fiskmörkuðum sé í raun óþolandi samkeppnismismunun.

Hann segir það gæti bætt stöðu innlendra framleiðenda yrðu kvaðir settar á „sérleyfishafana“, sem Arnar nefnir sem svo, og vísar þar til handhafa veiðiheimildanna, að þeir lönduðu ákveðnum hluta aflans á fiskmarkaði. Með þessu gæti myndast eðlilegt fiskverð sem hægt yrði að styðjast við í öllum viðskiptum með fisk.

„Ég held að þessi umræða verði veigamikill þáttur í næstu lotu kjaraviðræðna sjómanna við viðsemjendur sína. Sjálfum þætti mér ekki óeðlilegt að sérleyfishöfum yrði gert að landa fimmtungi síns afla á fiskmörkuðum.“