*

laugardagur, 16. febrúar 2019
Innlent 4. maí 2016 17:30

Valin hraðast vaxandi frumkvöðullinn

Frumkvöðlafyrirtækið Guide to Iceland var valið hraðast vaxandi frumkvöðlafyrirtækið hjá Nordic Startup Awards.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Guide to Iceland var í vikunni valið ,,Hraðast vaxandi frumkvöðlafyrirtækið" (Best exponential startup) á Íslandi hjá Nordic Startup Awards. Verðlaunin voru veitt til þess frumkvöðlafyrirtækis sem sýndi mestan árangur á síðasta ári við að innleiða bestu markaðsráðandi tækninýjungina samkvæmt Nordic Startup Awards.

Guide to Iceland mun því verða fulltrúi Íslands á úrslitakvöldi Nordic Startup Awards sem verður haldið í Reykjavík 31. maí nk. og mun þar keppa við frumkvöðlafyrirtæki frá hinum Norðurlöndunum um hin eftirsóttu verðlaun Nordic Startup Awards.

Guide to Iceland starfar sem stafrænt markaðstorg fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi. Fyrirtækið var stofnað árið 2012 og hefur vaxið jafnt og þétt. Farið var af stað með hugbúnaðinn árið 2014 og voru fáein fyrirtæki fengin til að prófa hann í upphafi.

Opnað var fyrir fleiri fyrirtæki á síðasta ári en heildarfjöldi fyrirtækja sem nota Guide to Iceland í dag er nú orðinn yfir 500 talsins. Guide to Icland hefur vaxið mjög hratt. Heildarvelta síðasta árs nam rúmlega 1,1 milljarði, sem var 1100% vöxtur frá árinu 2014. Starfsmenn fyrirtækisins eru nú um 30 talsins.

,,Við erum afar ánægð og stolt með þessa viðurkenningu sem okkur er veitt og hlökkum til að taka þátt í úrslitunum. Þessi viðurkenning er fyrst og fremst til allra starfsmanna fyrirtækisins sem hafa staðið sig gríðarlega vel,” segir Sigurður Guðbrandsson, tæknistjóri Guide to Icleand.