Fjórum starfsmönnum, þar af þremur af sex sviðsstjórum Hafrannsóknastofnunar, hefur verið sagt upp störfum. Bæði RÚV og mbl.is greina frá þessu.

RÚV hefur eftir Sigurði Guðjónssyni forstjóra að tilefni uppsagnanna séu fyrirhugaðar skipulagsbreytingar í tengslum við flutning stofnunarinnar til Hafnarfjarðar. Flutningurinn kalli á hagræðingu.

Á mbl.is segir að Héðinn Valdimarsson, sviðsstjóri á umhverfissviði, sé einn þeirra sem sagt hefur verið upp. Umhverfissvið stofnunarinnar hafi verið lagt niður og að einhverju leyti sameinað öðrum sviðum.

Einnig segir á mbl.is að sviðstjórum á uppsjávarsviði og gagna- og tölvusviði hafi verið sagt upp, en þau eru Þorsteinn Sigurðsson og Ásta Guðmundsdóttir.

Hafró sendi rétt í þessu frá sér tilkyningu þar sem segir að ákveðið havi verið að breyta skipulagi stofnunarinnar.

„Það er gert til að gera reksturinn skilvirkari og hagkvæmari. Fagsviðum er fækkar úr fimm í fjögur og stoðsviðum úr fjórum í tvö.“

Þá segir að í tengslum við flutning á starfsemi stofnunarinnar úr Reykjavík á einn stað í Hafnarfirði muni verða „breytingar í rekstri stoðþjónustu stofnunarinnar, störfum þar fækkað og ekki verður endurráðið í stöður sem losna á næstu mánuðum. Kjarnastarfsemi Hafrannsóknastofnunar verður óbreytt og verður öllum helstu rannsóknaverkefnum áfram sinnt.“

Á ársfundi Hafrannsóknastofnunar í september komu þeir Sigurður Guðjónsson forstjóri og Kristján Þór Júlíusson ráðherra báðir inn á fjármögnun stofnunarinnar og þær hagræðingarkröfur sem stjórnvöld gera til hennar.

„Ég ætla nú að gerast svo djarfur að tala um flatan niðurskurð sem ber kannski ekki mikinn vott um forgangsröðun,“ sagði Sigurður þá og beindi orðum sínum til ráðherrans. „Eins og fram kom hjá ráðherra er skýr vilji til að efla hafrannsóknir og umhverfisrannsóknir og þá vildum við gjarnan sjá að þessari hagræðingarkröfu yrði aflétt að minnsta kosti um stund af okkur.“

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir að hafrannsóknir gegni lykilhlutverki fyrir sjálfbæra auðlindanýtingu og þær þurfi að efla.

Í ávarpi Kristjáns Þórs á ársfundinum sagði hann að þessari stefnumörkun í samstarfssáttmála stjórnarflokkanna hafi verið fylgt eftir af fullum þunga. Auk aukins framlags á fjárlögum, nýrrar byggingar sem nú rís í Hafnarfirði og væntanlegrar smíði nýs hafrannsóknaskips boðaði ráðherrann samstarf um að efla rannsóknir á vistkerfisbreytingum í hafinu.

Uppfært klukkan 15:02 : Samkvæmt frétt Rúv tíu manns hefur verið sagt upp störfum hjá Hafrannsóknarstofnun. Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, segir að til viðbótar hafi fjórir sjálfir sagt upp.