Geitin á Ingólfsstræti

Hósiló er framúrskarandi veitingastaður út frá öllum þekktum mælikvörðum. Staðurinn er lítill en innréttingar hlýlegar og andrúmsloft vinalegt sem og fas starfsfólks. Eitthvað sem helst alls ekki alltaf í hendur þegar kemur að matsölustöðum í þeim gæðaflokki sem Hósiló sannarlega er. Og allt þetta er laust við uppgerð og látalæti.

Matseðillinn á Hósiló er stuttur og hnitmiðaður. Hann er líka síbreytilegur. Yfirleitt er boðið upp á tvo forrétti og þrjá aðalrétti: Fisk, kjöt og grænmetisrétt. Þá er að jafnaði boðið upp á sérstakan fiskrétt og pastarétt á hverjum degi. Er óhætt að fullyrða að vandfundinn er sá staður á höfuðborgarsvæðinu sem býður jafn vandaðan og góðan mat sem matreiddur er á framúrskarandi hátt á þessu verði.

Í stuttu máli er maturinn er Hósiló frábær og þrátt fyrir að hann sé eldaður af metnaði fer lítið fyrir stælum í matreiðslunni. Á staðnum er einfaldlega boðið upp á góðan mat sem er gaman að borða í góðum félagsskap. Þjónustan er svo til fyrirmyndar og að mörgu leyti minnir andrúmsloftið og viðmótið á litla veitingastaði sunnarlega í álfunni – það er að segja eins og þeir eru látnir koma áhorfendum fyrir sjónir í bandarískum bíómyndum.

Föt og framúrskarandi matur

Nebraska er veitingastaður á Barónsstíg sem opnaði á árinu. Staðurinn er reyndar ekki bara veitingastaður heldur einnig fataverslun. Föt og kjöt! Hverjum hefði dottið það í hug? Augljóslega eigendum Nebraska.

Maturinn er klassískur undir Miðjarðarhafsáhrifum en fatnaðurinn höfðar sennilega til þeirra sem yngri eru. Helgi í Góu og Patrik Atlason einnig kenndur við PBT  barnabarn hans gætu til að mynda slegið tvær flugur í einu höggi með heimsókn á Nebraska en það er önnur saga.

Nebraska er kærkomin viðbót í veitingahúsaflóruna í Reykjavík. Matseðillinn er einfaldur og samanstendur að fáum en vel völdum kjöt-, sjávar- og grænmetisréttum. Flaggskipið á seðlinum er Osso bucco með kartöflu-mús og rótargrænmeti. Vafalaust er sá réttur fullþungur í maga í hádegi fyrir kyrrsetufólk en þá er bara að heimsækja staðinn að kvöldi til.

Og þá er hægt að fara í fisk dagsins eða grænmetisrétti á borð við Ratatouille. Þá er töluvert úrval af smáréttum sem eru afbragðsgóðir. Þetta eru af stofninum þekktir réttir úr Miðjarðarhafseldhúsinu á borð við brandade, krókettur, auk kavíars og þess háttar.

Það er gaman að boðið er upp á brandade sem er nokkurs konar saltfiskstappa sem er borðuð með brauði og fara kokkar staðarins vel með þann rétt. Þá eru kjötbollurnar í arrabiata-sósunni hreint út sagt framúrskarandi.

Ekki verður þess lengi að bíða að ríkið Nebraska verði þekkt fyrir þrjá hluti í stað tveggja: Warrens Buffet, plötuna hans Bruce Springsteen og veitingastaði á Barónsstíg í Reykjavík.

Varnarþing fisksins

Það þarf ekki að koma á óvart að Brút á Pósthússtræti fékk frá Michelin-manninum á árinu. Á stuttum starfstíma hefur hann stimplað sig inn sem helsta varnarþing þeirra á höfuðborgarsvæðinu sem una sjávarfangi.

Þegar staðurinn opnaði á sínum tíma vakti athygli að skötubarð og ufsi voru á matseðlinum.

Fyrrnefnda fiskinn hafa Íslendingar ekki viljað borða óskemmdan þó svo að hann sjáist stundum á vönduðum veitingahúsum erlendis. Ufsinn hefur einnig þótt óæti hér á landi – að minnsta kosti meðal þeirra sem eru sprottnir úr sjávarútveginum – og hefur sú staðreynd að rokkbræðurnir Mikki og Danny bera nafn hans á enska tungu að eftirnafni.

Sá sem þetta skrifar hefur ekki smakkað ufsann en mælir sérstaklega með skötubarðinu sem er ljúffengt. Engin ástæða er til að álykta að hið sama gildi ekki um ufsann.

Þá er sólkolinn, skötuselurinn og lúðan alveg hreint framúrskarandi. Enda eru þetta meðal bestu matfiska sem finnast við Íslandsstrendur. Valið á hráefninu endurspeglar metnað þeirra Brútmanna til að reiða fram góðan mat og á sama tíma festast þeir ekki í því fari sem svo margir veitingastaðir í Reykjavík hafa verið fastir í allt frá því að ferðamannaiðnaðurinn sprakk út.

Vikulegur stjörnuleikur úti á Granda

La Primavera er að öðrum ólöstuðum einn besti veitingastaður landsins. Þrátt fyrir gæðin er verðinu stillt í hóf sérstaklega þegar horft er til gæða hráefnisins.

Í hádeginu er hægt að borða þríréttað fyrir 5.200 krónur. Matseðillinn er einfaldur. Þrír forréttir og svo val um aðalrétt sem er alla jafna fiskréttur, pastaréttur og kjötréttur.

Í stuttu máli er maturinn óaðfinnanlegur. Eldamennskan er einföld og laus við alla stæla. Þó kemur fyrir að fiskurinn er bragðdaufur og tilþrifalítill. Pastaréttirnir eru aftur á móti alltaf úr hæstu hillu.

Forréttirnir eru léttir og góðir og heldur sá sem þetta skrifar sérstaklega upp á Arancini en eins og allir fágaðir mataráhugamenn vita er það svar ítalskrar matarmenningar við ostapoppinu sem er framleitt af hinu goðsagnakennda fyrirtæki Iðnmark í Hafnarfirði.

Föstudagshádegin eru eins konar vikulegur stjörnuleikur þar sem helstu leikmenn fjármálageirans og annarra sviða íslensks athafnalífs eru kallaðir til leiks.

Kaupmátturinn kallar

Kastrup hefur skipað sér sess meðal vinsælustu veitingastaða landsins. Matseðillinn samanstendur af sígildu smurbrauði sem flestir þekkja og getur varla klikkað í hádeginu. Kastrup höfðar fyrst og fremst til fólks með mikinn kaupmátt og þá sérstaklega fólks í sérfræðistörfum hjá íslenska ríkinu.

Flaggskipið er heilsteiktur sólkoli í sítrónu og capers. Sólkoli er einn besti matfiskur sem veiðist hér við land en hátt verð sem fyrir hann er greitt ferskan á mörkuðum í Bretlandi og annar staðar hefur gert það að verkum að hann hefur verið sjaldséður á veitingahúsum bæjarins.

En eins og Jón Mýrdal veitingamaður á Kastrup hefur sagt í fjölmiðlum þá endurspeglar verðlagning á réttum hans að verið sé að höndla með gott hráefni og ofan á það bætast aðrir dýrir rekstrarþættir á borð við launakostnað. Óhætt er að fullyrða að ekkert er slegið af í þeim efnum á Kastrup. En sökum þessa þá höfðar Kastrup fyrst og fremst til fólks með mikinn kaupmátt og þá sérstaklega fólks í sérfræðistörfum hjá íslenska ríkinu.

Sérbox: Besti skyndibitinn

Þó svo að hægt sé að deila um hvort Keflavík tilheyri Íslandi í menningarlegum skilningi verður ekki deilt um jarðfræðilegar staðreyndir málsins – enn sem komið er að minnsta kosti. Rétt við ráðhúsið í Reykjanesbæ er að finna Pulsuvagninn. Segja má að þarna kallist á helstu valdastofnanir Suðurnesja og þarna er einmitt Lystigarðurinn í Keflavík. Þarna hefur myndast miðstöð valds, matargerðar og undursamlegrar náttúrufegurðar án hliðstæðu. Það er einna helst svæðið kringum þinghúsið í Washington D.C sem stenst samanburð.

Frægasti réttur Pulsuvagnsins er Villa-borgarinn sem dregur nafn sitt af einum af eigendum staðarins. Hamborgarinn er steiktur og látinn liggja í legi og borinn fram með því sem er sett ofan á pulsu með öllu auk rauðkáls og súrra gúrka.

Segja má með sanni að þetta sé þjóðarréttur Suðurnesja og helsta framlag þeirra til íslenskrar matarmenningar.

Þar sem borgarinn er tilbúinn við pöntun þá er um sérlega skilvirkan hádegisverð að ræða. Það er engin tilviljun að hugtakið orkuverður (e. power lunch) leit dagsins ljós í Keflavík kringum 1980. Eigi menn viðskiptaerindi í Reykjanesbæ þá er Pulsuvagninn tilvalinn til snarps hádegisverðarfundar.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði