Eins og allir ættu að vita ákvað Seðlabankinn að halda stýrivöxtum óbreyttum í síðustu viku. Á fundi peningastefnunefndar með greinendum og blaða-mönnum kom skýrt fram að eitt-hvað mikið þyrfti að breyt-ast í efnahagslífinu til að Seðlabankinn héldi áfram vaxta-lækkunum. Verð-bólgan væri svo þrálát að vaxtalækkanir væru útilokaðar að öllu öðru óbreyttu.
Eðli málsins samkvæmt var þetta helsta fréttamál vikunnar. Þingmennirnir Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálmur Árnason mættu í Sprengisand Kristjáns Kristjánssonar á Bylgjunni á sunnudag. Ragnar Þór sagðist í viðtalinu hafna peningastefnu Seðlabankans með öllu og sagði Seðlabankann vera á algjörum villigötum.
Þó svo að það sé ekkert nýtt að Ragnar Þór tali af yfirgripsmikilli vanþekkingu um efnahagsmál verður það að teljast töluverð tíðindi að sjálfur formaður fjárlaganefndar skuli lýsa algjöru vantrausti á eina af lykil-stofnunum efnahagslífsins. Ekki síst i ljósi þeirrar staðreyndar að Seðlabankinn starfar lögum samkvæmt eftir verðbólgumarkmiði og á að beita stjórntækjum peningamálastefnunnar til þess að ná því markmiði.
En Ragnar talaði fyrir því í viðtalinu að Seðlabankinn ætti hreinlega að lækka vexti. Hann er ekki að finna upp hjólið og er í raun og veru að leggja til að Seðlabankinn fari tyrknesku leiðina. Recep Erdogan, forseti Tyrklands, rak seðlabankastjórann árið 2021 og setti skoðanabróður sinn í embætti.
Þá voru stýrivextir 19% og verðbólga mældist á bilinu 15-20%. Verðbólgan fór svo í 80% eftir að vextir voru lækkaðir undir þrýstingi frá forsetanum.
Annars er áhugavert í umræðunni um efnahagsmálin hversu margir virðast telja að þenslu-hvetjandi aðgerðir séu rétta leiðin til þess að vinna bug á verðbólgunni. Þannig talaði Ragnar fyrir stórfelldri íbúðauppbyggingu í áðurnefndu viðtali. Það gerði Finnbjörn Hermannsson einnig í viðtali við Spegilinn í Ríkisútvarpinu í aðdraganda vaxtaákvörðunar bankans. Þá hefur ríkisstjórnin boðað eitthvert útspil í húsnæðismálunum á næstu vikum.
Verðbólga án húsnæðisliðarins er nú nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans og vísbendingar eru um verulega sé tekið að draga úr umsvifum á fasteignamarkaði. Þannig er sölutími nýrra íbúða orðinn mjög langur. Samkvæmt tölum frá HMS hefur vísitala húsnæðisverðs hækkað um 1,1% undanfarið hálft ár, sem er vel undir verðbólgu sama tímabils. Verði áframhald á þessari þróun mun það skipta sköpum við að lækka verðbólguna og skapa svigrúm til frekari vaxtalækkana.
Í ljósi þess þarf að spyrja þá sem tala fyrir stórfelldri íbúðaruppbyggingu á þessum tíma hvernig það geti verið lausn á þeirri stöðu sem er uppi í efnahagslífinu.
Það er ekkert athugavert við að lífsskoðunarfélög berjist fyrir áhugamálum sínum og áherslum – það er eðlilegur hluti opinnar samfélagsumræðu. En fjölmiðlar verða að gæta sín á að verða ekki sjálfir þátttakendur í slíkri baráttu. Segja má að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi fallið á því prófi í síðustu viku.

Í fréttum RÚV var sagt frá því að fjöldi hugsanlegra hatursglæpa vegna kynhneigðar hafi margfaldast frá árinu 2018. Í fréttinni var rætt við Þorbjörgu Þorvaldsdóttur, samskipta- og kynningarstjóra Samtakanna ’78. Hún sagði:
„Þetta er auðvitað ekki veru-leiki sem við viljum búa við og í raun og veru algjörlega óásættanlegt að hatursglæpir sem voru nánast óþekktir fyrir bara tíu árum séu orðnir svona algengir.“
Þá sagði í fréttinni:
„Hatursglæpir eru skilgreindir sem fordómar til dæmis vegna þjóðernis, trúarbragða, litarháttar, kynhneigðar eða kynvitundar. Samtökin ’78 segja þörf á löggjöf um hatursglæpi sem hafi raunverulegan fælingarmátt. Regluverk hér sé of veikt.
Samtökin ’78 vilja gjarnan sjá breytingar á almennum hegningarlögum þannig að hatursglæpir séu skilgreindir sérstaklega. Eins og þetta er núna þá kemur fordóma-ásetningur til refsiþyngingar í hegningarlagabrotum en við lítum svo á að þetta verði að vera skilgreint sérstaklega til þess að þetta sé rannsakað sérstaklega. Það þarf bæði að -breyta lögunum en svo þarf líka að setja meiri mannafla í að rannsaka þessi brot,“ segir Þorbjörg.“
Skilgreiningin sem stuðst er við í fréttinni er býsna víð og sannast sagna er sá sem horfir á hana litlu nær um eðli og umfang þessa meinta vanda í íslensku þjóðfélagi. Höfundur hefur t.d. oft orðið var við fordóma gagnvart Norðmönnum hér á landi – flokkast það samkvæmt þessari skilgreiningu sem hatursglæpur? Hér er ekki verið að gera lítið úr vandanum heldur að benda á að þessi fréttaflutningur segir áhorfandanum ákaflega lítið.
Vandinn við þessa frétt er einnig sá að þau gögn sem vísað er til segja eiginlega enga sögu og gefa hvað þá síður tilefni til þeirra ályktana sem dregnar eru.
Eins og fram kemur -heldur lögreglan ekki skrá yfir hatursglæpi heldur „hugsanlega hatursglæpi“. Þetta þýðir að tölurnar ná til tilkynninga og skráninga á málum þar sem ekkert er vitað um hver lagaleg niðurstaða verður í þeim tilfellum sem reyna kann á slíkt. Þetta er ekki mæling á hatursglæpum sjálfum heldur eingöngu á fjölda tilvika þar sem grunur hefur vaknað og þau verið skráð. Við þetta bætist að fjöldi þessara tilvika er mjög lítill. Þegar tölurnar eru svo lágar geta litlar breytingar litið út fyrir að vera miklar þegar þær eru skoðaðar hlutfallslega. Þreföldun milli ára í þessu samhengi bendir ekkert endilega til kerfislægs vandamáls. Þetta þýðir ekki að vandinn sé ekki raunverulegur – það kann vel að vera – heldur að viðkomandi tölfræði segir lítið ein og sér.
Fram kemur í fréttinni að lögreglumenn hafi fengið sérstaka kynningu á hatursglæpum frá því að nám í lögreglufræðum færðist á háskólastig. Í lok fréttarinnar er svo rætt við Ólaf Örn Bragason, sviðsstjóra mennta- og starfsþróunarseturs Ríkislögreglustjóra, sem sagði meðal annars að „vitundarvakning“ um hatursglæpi hefði átt sér stað innan lögreglunnar á undanförnum árum. Það eitt og sér getur skýrt þessa fjölgun og í raun og veru viðurkennir Ólafur Örn í samtali við fréttastofuna að ekkert sé hægt að fullyrða um hvort fjölgun brota hafi raunverulega átt sér stað.

Umfjöllun og aukin vitund um málefni gerir að verkum að fleiri treysta sér til að leita til lögreglu. Það fjölgar skráningum en segir ekkert um breytingar á tíðni meintra brota. Jafnvel í þeim tilfellum er ekki hægt að fullyrða nokkuð um orsakasamhengið. Hér má minna á gamla auglýsingaherferð Mjólkursamsölunnar sem bar nafnið „Muu – mundu eftir mjólkinni.“ Að henni lokinni sýndi markaðsrannsókn að meirihluti Íslendinga tengdi baulið muu við mjólkurdrykkju. Það hefur ekki hvarflað af markaðssérfræðingunum að þessi hugrenningatengsl kunnu að hafa verið til staðar hjá þjóðinni áður en auglýsingaherferð-inni var ýtt úr vör. En þetta er auðvitað útúrdúr.
Í sjálfu sér eru hatursglæpir og þörfin á sérstakri lög-gjöf vegna þeirra gott og gilt frétta-mál. En til þess að slíkur frétta-flutningur geri eitthvað gagn þarf að kalla eftir fleiri sjónarmiðum en þeim sem Samtökin ’78 halda á lofti. sama tíma og Ríkisútvarpið fjallaði um „hugsanlega hatursglæpi“ var mikið fjallað um „grunaða eldislaxa“ í öðrum fjölmiðlum. Við lifum á einkennilegum tímum.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 27. september.