Stjórnvöld á Filippseyjum hafa stöðvað starfsemi Uber í landinu í einn mánuð samkvæmt frétt Reuters. Ákvörðunin kemur í kjölfarið á því að rannsókn stjórnvalda leiddi í ljós að fjöldi bílstjóra sem væru ekki með tilskilin leyfi, væru að bjóða upp á leigubílaþjónustu með Uber.

Samgöngumálanefnd landsins gaf ekki ástæður fyrir ákvörðuninni. Nefndin lagði það hins vegar til að Uber myndi veita fjárhagsaðstoð til þeirra bílstjóra sem höfðu tilskilin leyfi til leigubílaaksturs á meðan á banninu stendur.

Í tillögunni segir að fjárhagsaðstoðin myndi sýna að Uber starfaði í landinu í „góðri trú". Í leiðinni myndi fyrirtækið sýna fram á viðurkenndir bílstjórar þyrftu ekki að takast á við afleiðingar þeirra sem störfuðu án leyfis fyrir Uber. Talsmaður Uber segir fyrirtækið vera að fara yfir ósk nefndarinnar.