Mammoth, stærsta lofthreinsiver heims (e. direct air capture and storage), hefur nú starfsemi á Íslandi í Jarðhitagarði ON á Hellisheiði. Fyrir starfrækir svissneska fyrirtækið Climeworks stöðina Orca á svæðinu, sem er fyrsta stóra lofthreinsiver heims, en nýja verið er um tífalt stærra.

Climeworks á í samstarfi við Carbfix um niðurdælingu og bindingu koltvísýrings sem fangaður er, og Orku náttúrunnar fyrir endurnýjanlega orku.

Svissneska fyrirtækið hóf byggingu á Mammoth í júní 2022. Lofthreinsibúnaðinum verður komið fyrir í áföngum en nú hefur 12 af 72 föngunareiningum verið komið fyrir og munu fleiri bætast við í ár.

Þegar allar einingarnar eru komnar á sinn stað mun Mammoth hafa föngunargetu upp á 36.000 tonn af koltvísýringi á ári hverju.

„Opnun Mammoth er mikilvægt skref í vexti og þróun Climeworks, en markmið okkar er að fanga megatonn af koltvísýring árið 2030 og gígatonn árið 2050. Opnunin í dag er skýrt dæmi um fjárfestingu okkar í áframhaldandi rannsóknum og þróun til að bæta tækni okkar og auka skilvirkni í gegnum starfsemi við raunaðstæður,“ segir Jan Wurzbacher, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Climeworks.

Á Íslandi starfar fyrirtækið í samstarfi við Orku náttúrunnar, sem sér þeim fyrir hita og rafmagn, auk þess að eiga í nánu samstarfi við Carbfix sem sér um niðurdælingu og bindingu þess koldíoxíðs sem fangað er.