Morgunglugginn hefur verið opin á Ríkisútvarpinu í sumar en það eru þau Helgi Seljan og Vera Illugadóttir sem stjórnuðu þættinum en hann hefur nú runnið sitt skeið á enda. Í þættinum þann 7. ágúst sagði Helgi frá áhugaverðu máli sem snýr að deilum hjónanna Steinars Berg og Ingibjargar Pálsdóttur, ferðaþjónustubænda í Fossatúni í Borgarbyggð, við Veiðifélag Grímsár og Tunguár.
Í stuttu máli snýst málið um að rétt eftir aldamót keyptu hjónin jörðina Fossatún og ákváðu að byggja þar upp ferðaþjónustu. Jörðin liggur að laxveiðiá og er með veiðihlunnindi í Grímsá og samkvæmt lögum verða allir sem eiga land að slíkum laxveiðiám að vera í veiðifélagi. Þau Steinar og Ingibjörg urðu því að ganga í Veiðifélag Grímsár og Tunguár.
Fljótlega ákvað félagið að ráðast í gagngerar og kostnaðarsamar breytingar á veiðihúsi sínu til að leigja það út til ferðamanna utan veiðitímabilsins, á miklu undirverði. Steinar segir að þetta hafi verið ólöglegt. Með öðrum orðum: hjónin voru í félagi sem hafði tekið ákvörðun um að fara í beina samkeppni við þá starfsemi sem þau ráku á eigin landi.
Þau skutu málinu til dómstóla og unnu loks sigur í Hæstarétti. Steinar segir í viðtalinu við Helga að stuttu eftir úrskurð Hæstaréttar hafi formaður Landssambands veiðifélaga, Óðinn Sigurþórsson, farið á fund Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í kjölfarið hafi hann fengið umboð ráðherrans til að vinna að lagabreytingu ásamt starfsfólki ráðuneytisins, sem síðan var keyrð í gegn á Alþingi án nokkurrar fyrirstöðu.
Til að gera langa sögu stutta þurftu hjónin að fara í aðra umferð í réttarkerfinu, sem endaði með fullnaðarsigri í Hæstarétti. Það sem Steinar segir í viðtalinu um hvernig ráðuneytið knýr fram lagabreytingarnar eftir fyrstu niðurstöðu Hæstaréttar er hins vegar ákaflega áhugavert og ætti að vera mörgum umhugsunarefni.
Á þessum vettvangi í síðustu viku var fjallað um hversu mikið púður ljósvakamiðlarnir hafa sett í fréttaflutning í sumar um hvað stjórnarandstaðan sé óvinsæl og henni sé best að halda sig á mottunni þegar nýtt þing kemur saman. Í þeirri umfjöllun var meðal annars vísað í viðtal á Stöð 2 við Ólaf Þ. Harðarson. Þar sagði hann í lokin:
„Ætlar stjórnarandstaðan að beita áfram sömu taktík og á liðnum vetri með tafarleikj um og málþófi, eða hvort menn loksins sammælast um að láta þingstörfin ganga bara með eðlilegum og skaplegum hætti, eins og raunin er í öllum nágrannalöndum okkar?“
Í þessum orðum virðist felast sú hugsun að það sé bara stjórnarandstöðunni fyrir bestu að flækjast ekki fyrir meirihlutanum og helst segja sem minnst. Það endurspeglar sérstaka sýn á lýðræðið, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.
Þarna er ekkert minnst á þá staðreynd að þingstörfin í vor gengu meðal annars erfiðlega vegna þess að mörg af þeim frumvörpum sem ríkisstjórnin lagði fram voru meingölluð, í sumum tilfellum lögð alltof seint fram og vanræksla á samráði við umsagnaraðila nánast reglan. Er það ekki einmitt þakkarvert hlutverk stjórnarandstöðunnar að minnsta kosti að benda á slíka agnúa og helst freista þess að sníða helstu vankanta af slíkri hrákasmíð?
Saga hjónanna í Fossatúni er áminning um hversu hættulegt það er þegar framkvæmdavaldið og meirihlutinn á Alþingi knýja í gegn vanhugsaða lagasetningu án þess að gefinn sé tími til að meta afleiðingarnar. Þetta er ekki bara fræðilegt lýðræðismál heldur spurning um raunveruleg áhrif á líf fólks, atvinnu og fjárhag.
Slíkt vinnulag á sér því miður hliðstæðu í öðrum málum — til dæmis þegar ákveðið var að binda útreikning veiðigjalda við verðlagningu á tilteknum fisktegundum í Noregi, án þess að meta nægilega vel hvaða efnahagslegar og rekstrarlegar afleiðingar það gæti haft hér á landi. Í báðum tilfellum er niðurstaðan sú sama: ákvörðun tekin í flýti, með ófullnægjandi undirbúningi, sem getur kostað samfélagið dýrt.
Í aðdraganda þingkosninganna sem fóru fram síðastliðinn nóvember birtist áhugaverð úttekt í Viðskiptablaðinu. Þar var fjallað um bakgrunn þeirra frambjóðenda sem skipuðu fimm efstu sætin á framboðslistum flokkanna.
Niðurstaðan var býsna sláandi. Aðeins fjórðungur þeirra sem voru í framboði í efstu sætum kom úr einkageiranum. Samtals voru þetta 240 frambjóðendur og tæplega 60% þeirra annaðhvort stjórnmálamenn sem fá laun greidd frá hinu opinbera eða opinberir starfsmenn. Afgangurinn, átján prósent, kom úr þriðja geiranum eða annars staðar frá.
Í greininni segir meðal annars:
„Að því sögðu er áhugavert að greina bakgrunn þeirra sem bjóða sig fram í þingkosningunum sem fara fram 30. nóvember næstkomandi. Í úttekt Viðskiptablaðsins voru störf þeirra sem skipa fimm efstu sætin á listum þeirra flokka sem nú eiga sæti á þingi skoðuð. Tilgátan sem unnið var með er að meirihluti stjórnmálamanna komi úr röðum opinberra starfsmanna. Störfin voru flokkuð með eftirfarandi hætti:
Í fyrsta lagi almenni markaðurinn. Í þennan flokk voru þeir frambjóðendur sem starfa hjá einkafyrirtækjum, verktakar, sjálfstætt starfandi og bændur.
Í öðru lagi voru stjórnmálamenn teknir í sérflokk og auk sitjandi alþingismanna og þeirra sem hafa stjórnmál að ævistarfi voru sveitarstjórnarfulltrúar stærri sveitarfélaga settir í þennan flokk.
Þriðji hópurinn er opinberi geirinn og ekki þarf að orðlengja um hverjir eru í þeim flokki.
Í næsta hópi voru þeir sem starfa hjá hinum svokallaða þriðja geira settir en þar er um að ræða félagasamtök, hagsmunasamtök og íþróttahreyfinguna svo dæmi séu tekin.
Rétt er að hafa í huga að stór hluti þriðja geirans er fjármagnaður með opinberum framlögum. Þeir sem áttu ekki heima í þessum fjórum flokkum voru settir í afgangsflokk: Þeir voru 32 og þar er að finna nema, öryrkja og þá sem engar upplýsingar var hægt að finna um vinnuferil á netinu – þeir voru nokkrir og verður það að teljast eftirtektarverður kostur í fari stjórnmálamanns í framboði að ná að fela netspor sitt með slíkum hætti.“
Þetta skiptir máli. Efnahagslegur og félagslegur bakgrunnur frambjóðenda ræður miklu um stjórnmálaskoðanir og þar með hvaða flokk þeir kjósa að starfa í. Einsleitni bakgrunns þvert á flokka hefur áhrif á þá pólitísku menningu sem mótast á þingi.

Ástæðan fyrir að rifja þetta upp nú er að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur virðist hafa sett sér það markmið að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Þjóðaratkvæðagreiðslan sem áformuð er árið 2027 – þar sem spurt verður hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum sem runnu út í sandinn fyrir rúmum áratug – verður væntanlega undirbúin af hálfu ríkisstjórnarinnar af fullum krafti.
Þessum fyrirætlunum mun fylgja fjöldi skoðanakannana sem munu vafalaust sýna djúpstæðan klofning í þjóðinni. Sem kunnugt er eru niðurstöður slíkra kannana greindar eftir hefðbundnum breytum eins og aldri, búsetu og flokksstuðningi.
Það væri þó tímabært að bæta við nýrri og efnahagslega þýðingarmikilli breytu: hvort viðkomandi starfi hjá hinu opinbera eða í einkageiranum. Opinberir starfsmenn eru svo stór hluti vinnumarkaðarins að ekkert aðferðafræðileg vandamál ætti að koma í veg fyrir slíka greiningu í úrtaki upp á 800–1000 manns.
Hagsmunatengingin er augljós. Starfsmenn hins opinbera horfa eðlilega til áhrifa á opinberan rekstur, reglusetningu og samninga innan EES eða ESB. Einkageirinn horfir á móti til hagnaðar-, viðskiptatækifæra- og samkeppnissjónarmiða. Rannsóknir sýna að atvinnugeirar hafa ólíka afstöðu til breytinga á stjórnsýslu og yfirþjóðlegra samninga. Þetta gæti því útskýrt hluta klofningsins í ESB-umræðunni sem hefðbundnar breytur eins og aldur og menntun ná ekki að varpa ljósi á.
Með því að bæta breytunni „opinberi eða einkageiri“ við hefðbundna lýðfræðigreiningu mætti setja stuðning eða andstöðu við ESB í nýtt samhengi. Þá gæti komið í ljós hvort yngra fólk í opinbera geiranum sé líklegra til að styðja inngöngu en eldri hópar í sama geira, eða hvort einkageirinn fylgi allt öðrum mynstrum en ætla mætti.
Slík greining myndi ekki aðeins auðga skilning okkar á ESB-deilunni heldur varpa ljósi á hvernig efnahagslegur bakgrunnur mótar pólitíska afstöðu – jafnvel meira en hingað til hefur verið viðurkennt. Í raun og veru á þetta við um fleiri deilumál í íslenskum stjórnmálum – nánast þorra allra samfélagsmála.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. ágúst 2025.